Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Neitar að hafa reynt að tefja mál fjölskyldunnar

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Magnús D. Norðdahl, lögmaður Khedr-fjölskyldunnar frá Egyptalandi, sem vísa átti úr landi í morgun, segir að hvorki hann né umbjóðendur sínir hafi reynt að tefja málið. Hann gerir athugasemd við að Útlendingastofnun hafi tjáð sig í fjölmiðlum um meintan skort á samstarfsvilja fjölskyldunnar.

Í morgun átti að vísa fjölskyldunni úr landi, en hún var ekki á þeim stað sem hafði verið fyrirfram ákveðinn. Samkvæmt upplýsingum frá embætti ríkislögreglustjóra hafa þau ekki fundist og ekki hefur verið tekin ákvörðun um að lýsa eftir þeim.

Stoðdeild ríkislögreglustjóra sendi frá sér yfirlýsingu í dag þar sem fullyrðingum Magnúsar um að deildin hafi haft sex vikur til að flytja fjölskylduna úr landi á gildum skilríkjum er hafnað, en skilríki tveggja barnanna runnu út 28. janúar. Þar segir að Útlendingastofnun hafi beðið um flutning fólksins tveimur vikum fyrir þann tíma, sá tími hafi ekki dugað til að skipuleggja flutninginn, því afla þurfi margvíslegra heimilda til þess.

„Það er örugglega alveg rétt að málið hafi dottið inn á borð stoðdeildar á þeim tíma sem þau segja að það hafi gerst. Það er líka rétt að við kröfðumst frestunar réttaráhrifa og því var svarað 8. janúar. En það held ég að sé ekkert úrslitaatriði; við höfum haft mál til meðferðar þar sem aðilar hafa verið að bíða eftir frestun réttaráhrifa og þeim hefur verið vísað úr landi. Það er því mín skoðun, að stjórnvöld - þetta heildstæða kerfi Útlendingastofnunar, Kærunefndar útlendingamála og Stoðdeildar ríkislögreglustjóra, hafði tíma frá 18. desember til 28. janúar.“

Þorsteinn Gunnarsson, sviðsstjóri hjá Útlendingastofnun, sagði í Kastljósi í gær að hægt hefði verið að flytja fjölskylduna, foreldra og sex börn þeirra, úr landi í ársbyrjun, en það hafi strandað á því að foreldrarnir hefðu ekki viljað láta framlengja vegabréf tveggja barnanna sem áttu að renna út 28. janúar. Þess í stað hefðu yfirvöld þurft að óska eftir nýjum vegabréfum frá Egyptalandi og það ferli hefði tekið marga mánuði með tilheyrandi töfum á brottvísun fólksins.

Sjá einnig: Segir brottvísun hafa tafist vegna útrunnina vegabréfa

Magnús hefur sent erindi til Útlendingastofnunar þar sem hann óskar eftir gögnum sem varða þennan þátt málsins. 

Segir Útlendingastofnun ekki hafa heimild til að tjá sig 

„Útlendingastofnun hefur ekki sent mér upplýsingar eða gögn þess efnis sem staðfesta þessar ásakanir, sem fyrst eru að koma fram í fjölmiðlum,“ segir Magnús. „Þá er það ljóst að Útlendingastofnun er ekki með neina heimild til frá umbjóðendum mínum til að tjá sig um málefni fjölskyldunnar á opinberum vettvangi, hvað þá heldur varðandi atriði sem virðast vera að koma fram í fyrsta sinn í fjölmiðlum.“

Hvers vegna völdu þau að óska eftir nýjum vegabréfum í stað þess að framlengja gildistímann? Má ekki líta þannig á að tilgangurinn hafi verið að tefja málsmeðferðina? „Ég get ekki tjáð mig um þetta mál á þessu stigi og þessar meintu ásakanir fyrr en mér hafa verið send þau gögn og þær upplýsingar sem þarna liggja að baki.“

Voru skjólstæðingar þínir eða þú að reyna að tefja málið? „Nei. Við höfum ekki gripið til vísvitandi aðgerða til að tefja þetta mál. En hafa verður í huga að hér er um að ræða flóttafólk sem er að flýja aðstæður í heimalandi þar sem þau telja að lífi sínu sé ógnað. Aðilar í þeirri stöðu fara ekki sjálfviljugir úr landi.“