Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Mjög góð síldveiði fyrir austan land

16.09.2020 - 14:22
Mynd með færslu
Víkingur AK landaði fyrstu loðnu vertíðarinnar á Vopnafirði Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Mjög góð síldveiði er nú undan Austfjörðum en allur uppsjávarflotinn er hættur makrílveiðum og kominn á síld. Verð fyrir síldarafurðir hefur staðið í stað frá í fyrra, en hagstæðar aðstæður við veiðar og vinnslu eru ávísun á góða afkomu af vertíðinni.

Fyrstu skip hófu veiðar á norsk-íslenskri síld fljótlega upp úr mánaðarmótum en flest hafa þó fært sig úr makríl yfir í síld síðustu daga. Íslensk skip mega veiða um 80 þúsund tonn.

Stutt að fara á miðin

Þegar vel veiðist eins og nú getur kvóti skipanna klárast fljótt. Þannig er það hjá Skinney Þinganesi á Hornafirði sem reyndar byrjaði snemma. Ásgeir Gunnarsson, framkvæmdastjóri veiða og vinnslu, er ánægður með vertíðina. „Þetta er stutt að fara. Við erum einhverja 7-8 tíma hérna frá Hornafirði og förum austur í Seyðisfjarðardýpi."

Vonar að síldin verði sem lengst við landið

Sömu sögu er að segja af öðrum útgerðum. Það er stutt að fara til veiða og síldin er gott hráefni til vinnslu. Og Ásgeir vonar að hún verði sem lengst í landhelginni áður en hún gengur í austurátt og yfir í Síldarsmuguna. „Það er mjög gott að ná henni þarna uppi á grunninu áður en hún leggur í hann."

Kærkomið að fá góða síldarvertíð

Frosin síld er seld til Austur Evrópu og Ásgeir segir söluhorfur góðar þó verðið mætti vera hærra. Engin verðhækkun hafi orðið frá í fyrra. „En á meðan efnið er svona gott og við getum unnið það nánast 100 prósent til manneldis þá verður afkoman ágæt á þessarri vertíð.“
Þannig að þessi stutti tími er mikilvægur fyrir ykkur?
„Hann er mjög mikilvægur og sérstaklega eftir svona vertíð eins og makrílvertíðin var, hún var nokkuð erfið. Þannig að það er alveg kærkomið að fá svona vertíð."