Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Mikilvægt að lífeyrissjóðirnir taki þátt í útboðinu

16.09.2020 - 19:25
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Þór Ægisson - RÚV
Forstjóri Icelandair vonast til þess að viðsnúningur verði í rekstri félagsins um mitt næsta ár. Hlutafjárútboð hófst í morgun en óvissa ríkir um þátttöku stærstu lífeyrissjóða landsins.

 

Icelandair boðaði til kynningarfundar fyrir fjárfesta í morgun þar sem farið var yfir stöðu félagsins og væntingar.

Stefnt að því að safna allt að 23 milljörðum króna í útboðinu sem lýkur klukkan fjögur á morgun. Icelandair hefur þegar samið við Íslandsbanka og Landsbanka um kaup á hlutabréfum fyrir sex milljarða sem eru háð þeim skilyrðum að félagið nái að safna 14 milljörðum í útboðinu.

Verðmæti hlutabréfa í fyrirtækinu hefur rýrnað um 84 prósent það sem af er þessu ári og mikil óvissa ríkir almennt á flugmarkaði út af COVID-19 faraldrinum.

Bogi Nils Bogason forstjóri Icelandair gerir ráð fyrir því að ná viðspyrnu um mitt næsta ár.

„Við erum að gera ráð fyrir því að heimurinn sé búinn að ná ákveðnum tökum á heimsfaraldrinum þegar líða fer á næsta ár en við erum samt ekki að gera ráð fyrir því að fljúga nema svona tæplega helminginn af því sem við flugum 2015 á næsta ári. Ef þetta gengur hægar fyrir sig, miðað við þetta upplegg okkar og hlutafjárútboðið gangi upp, að þá erum við með lausafé til þess að komast inn á árið 2022. Þannig að við erum búin að búa til mjög mikið svigrúm,“ segir Bogi.

Fjórir stærstu lífeyrissjóðir landsins eiga um þriðjung allra hlutabréfa í fyrirtækinu. Þetta eru Lífeyrissjóður verslunarmanna, Gildi, Birta og LSR. Ekki liggur fyrir hvort þessir sjóðir taka þátt í útboðinu.

Bogi segir að það verði erfitt að ná markmiðum útboðsins án þátttöku þessara sjóða.

„Umhverfi okkar hér á Íslandi varðandi fjárfesta er þannig að lífeyrissjóðirnir eru lykilaðilar á þessum markaði og öll stór hlutafjárútboð sem eiga sér stað á Íslandi að þau ganga yfirleitt ekki upp nema lífeyrissjóðirnir taki virkan þátt í þeim og það á nákvæmlega sama við um okkar útboð núna. Þannig að það er mikilvægt að lífeyrissjóðirnir taki virkan þátt í þessu útboði. Við Íslendingar höfum falið lífeyrissjóðunum að fara með okkar sparnað og þeir eru langstærsti aðilinn á markaðinum þannig að það er mikilvægt að þeir taki þátt,“ segir Bogi.