Látið eins og það séu ekki konur í íslensku rappsenunni

Mynd: RÚV / RÚV

Látið eins og það séu ekki konur í íslensku rappsenunni

16.09.2020 - 15:43

Höfundar

Pistill þar sem fluttar voru fregnir af andláti íslensks rapps hefur vakið umtal að undanförnu. Salka Valsdóttir, rappari, er sammála ýmsu sem þar er látið flakka en segir að þar sé gengið fram hjá því sem konur hafi lagt til tónlistarinnar í gegnum árin. Konur hafi verið mótvægisafl allan þann tíma sem rappbylgjan á Íslandi hefur staðið yfir.

Pistlahöfundur Lestarinnar á Rás 1, Davíð Roach Gunnarsson, birti í síðustu viku grein sem hann nefnir Andlát: Íslenskt rapp, þar sem hann lýsir yfir dauða þess sem kallað hefur verið þriðja bylgja íslenskrar hipphopp-tónlistar. Ástand íslensku rappsenunnar var tekið til umræðu í Lestinni á Rás 1. Salka Valsdóttir, rappari og taktsmiður, Bergþór Másson, blaðamaður og Atli Bollason, menningarrýnir, settust í pallborð og rökræddu lífslíkur rappsins.

„Það er stundum talað um íslenska rappsenu eins og það séu ekki konur í henni,“ segir Salka. Sú mynd sem dregin er upp af íslensku rappi í pistlinum hefur blasað við í lengri tíma, segir hún, en allan þann tíma sem ris þriðju rappbylgjunnar á Íslandi hefur staðið yfir hafi konur verið mótvægisafl.

„[Konur] koma frá stað sem er nær rótum hipphopps að því leyti að það er verið að berjast fyrir einhverju. Það er einhver tjáningarþörf og verið að nota þennan vettvang til að tjá sig til þess að gera grein fyrir sínum stað í samfélaginu eða einhverri baráttu,“ segir Salka og nefnir hljómsveitir sínar, Reykjavíkurdætur og Cyber, sem dæmi auk Alviu og Countess Malaise.

„Það kom mér á óvart að hann skuli ekki hafa tekið það inn í þetta,“ segir Salka, en rétt er að nefna að í inngangsorðum pistilsins er tiltekið að eitt af mörgum banameinum íslensks hipphopps sé einmitt karllægni.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Hljómsveitin Cyber.

Í pistlinum er íslenskt hipphopp gagnrýnt fyrir skefjalausa efnishyggju og er Salka sammála þeim aðfinnslum.

„Það er verið að apa upp eftir bandarískum fyrirmyndum, sem eru í megindráttum people of color sem er í rauninni að segja: „Ég er búin að byggja upp mitt eigið veldi, ég er búin að sigra ykkar kerfi.“ Svo eru hvítir íslenskir strákar búnir að apa upp eftir þeirri hegðun. Það hefur þau áhrif að ungir krakkar vilja kaupa sér ógeðslega dýra merkjavöru og allt í einu er stéttaskipting í grunnskólum orðin helluð.“

Kyndilberar kapítalismans í poppkúltúr á Íslandi í dag eru bersýnilega rapparar, segir Salka.

Hægt er að hlusta á umræðurnar í heild hér:

Mynd:  / 

Tengdar fréttir

Tónlist

Andlát: Íslenskt rapp