Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Krefur Jón Baldvin um milljón í miskabætur

16.09.2020 - 16:46
Mynd með færslu
 Mynd:
Konan sem kærði Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi utanríkisráðherra, fyrir kynferðislega áreitni, krefur hann um eina milljón í miskabætur í málinu. Þetta kemur fram í ákærunni á hendur Jóni, sem fréttastofa hefur fengið afhenta.

Jón Baldvin mætti ekki sjálfur við þingfestingu ákærunnar í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Þinghaldið í málinu er opið, þar sem hvorki Jón Baldvin né konan sem kærði hann settu sig upp á móti því.

Í ákærunni er Jóni Baldvin gefið að sök að hafa strokið eftir rassi konu í matarboði á Spáni sumarið 2018. Hann hefur kallað ásakanirnar uppspuna, síðast í grein í Morgunblaðinu fyrir rúmri viku.

Vilhjálmur Vilhjálmsson, verjandi Jóns Baldvins, vísar í frávísunarkröfu sinni til fimmtu greinar hegningarlaga, þar sem segir að íslenskum ríkisborgurum skuli aðeins refsað eftir íslenskum hegningarlögum fyrir brot erlendis ef slíkt brot er jafnframt refsivert í því landi.

Jón Baldvin er ákærður fyrir brot gegn 199. grein almennra hegningarlaga sem hljóðar svo: „Hver sem gerist sekur um kynferðislega áreitni skal sæta fangelsi allt að 2 árum. Kynferðisleg áreitni felst m.a. í því að strjúka, þukla eða káfa á kynfærum eða brjóstum annars manns innan klæða sem utan, enn fremur í táknrænni hegðun eða orðbragði sem er mjög meiðandi, ítrekað eða til þess fallið að valda ótta.“

Héraðssaksóknari lét þýða 181. grein spænskra hegningarlaga og vísar til þess sem sambærilegs ákvæðis þar ytra. Þýðingin er svohljóðandi:

„1. Sá sem, án ofbeldis eða þvingunar og án þess að um samþykki sé að ræða, framkvæmir athöfn sem brýtur gegn frelsi eða kynferðislegu skaðleysi annars einstaklings, skal refsað, sem ábyrgum fyrir kynferðislegri misnotkun, með eins til þriggja ára fangelsisvist eða átján til tuttugu og fjögurra mánaða sekt.
2. Í skyni ofanverðrar málsgreinar, er kynferðisleg misnotkun án samþykkis sú sem á sér stað gagnvart einstaklingum sem eru meðvitundarlausir eða andleg fötlun þeirra er misnotkun, sem og sú sem framin er með því ða koma í veg fyrir sjálfstæðan vilja þolanda með notkun lyfja, fíkniefna eða hvaða náttúrulegu eða kemísku efni sem er sem hefðu þessi áhrif.
3. Sama refsing á við þegar samþykki er fengið með því að gerandi nýti sér yfirburðastöðu sína til að sekrða frelsi þolandans.“

Tekist verður á um frávísunarkröfuna 30. október.