Í sóttkví en þurfa þjónustu allan sólarhringinn

16.09.2020 - 17:22
Akstursþjónusta fatlaðra.
 Mynd: Fréttir
Tveir starfsmenn íbúðakjarna fyrir fatlað fólk í Breiðholti og Grafarvogi í Reykjavík hafa greinst með kórónuveiruna. Tveir íbúar eru í sóttkví. „Þeir fóru í skimun í dag. Þeir eru einkennalausir. Við bara vonumst til þess að þeir greinist ekki með smit,“ segir Regína Ásvaldsdóttir, sviðsstjóri velferðarsviðs. Leita þarf til fyrrum starfsmanna til að starfsemin haldist órofin.

Leita til fyrrum starfsmanna til að manna vaktir

„Þeir eru ekki í áhættuhópi þannig lagað séð varðandi heilsufar. En þetta er viðkvæmur hópur vegna þess að þeir þurfa mikla umönnun; það að skilja leiðbeiningar varðandi smitvarnir og annað er viðkvæmt mál og þeir þurfa þjónustu allan sólarhringinn,“ segir Regína jafnframt.

Upphaflega var talið að tuttugu og sex starfsmenn þyrftu að fara í sóttkví en þau eru þrettán. „Okkar áhyggjuefni er að halda órofinni þjónustu við þessar aðstæður. Við leggjum allt kapp á það að leita til fyrrum starfsmanna og færa til fólk í kerfinu hjá okkur til þess að mæta þörfum þeirra og þjónusta þá,“ segir Regína.

Vilja forgang í skimun

Hún segir að óskað hafi verið eftir forgangi í skimun starfsfólks velferðarsviðs. „Ég frétti það að það væri verið að bjóða skimun í Háskóla Íslands og fleiri stöðum. Við erum að senda sóttvarnalækni erindi þess efnis þar sem við viljum fá allsherjarskimun hjá okkar starfsfólki. Auðvitað erum við líka að vakta íbúana mjög vel.“

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Regína Ásvaldsdóttir, sviðsstjóri velferðarsviðs.
holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi