Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hátt í 800 flugleggir þegar verið bókaðir með Loftbrú

Mynd með færslu
 Mynd: Loftbrú - RÚV/grafík
Hátt í átta hundruð flugleggir hafa verið bókaðir með afsláttarkóða Loftbrúar síðan verkefnið fór af stað fyrir viku. Ríkið hefur því niðurgreitt fargjöld fyrir tæpar fimm milljónir króna á einni viku.

Kjörin ná til rúmlega 60 þúsund manns

Í dag er vika síðan Loftbrú var formlega tekin í notkun við hátíðlega athöfn á Egilsstaðaflugvelli. Loftbrú veitir afsláttarkjör þeim sem eiga lögheimili á landsbyggðinni fjarri höfuðborgarsvæðinu. Undir Loftbrú falla Vestfirðir, hluti af Norðurlandi vestra, Norðurland eystra, Austurland, Hornafjörður og Vestmannaeyjar. Svæðið er afmarkað með tilliti til póstnúmera og afsláttarkjörin ná til rúmlega 60 þúsund íbúa.

Á þessu ári er hægt að fá niðurgreidda eina ferð til Reykjavíkur fram og til baka en eftir það þrjár ferðir eða sex flugleggi á ári. Kostnaður af greiðsluþátttöku ríkisins við lækkun flugfargjalda í verkefninu er metinn á allt að 600 milljónir króna á ársgrundvelli, og 200 milljónir á þessu ári.

Búið að niðurgreiða fargjöld fyrir fimm milljónir

Samkvæmt tölum frá Vegagerðinni, sem heldur utan um Loftbrú, hafa nú, þegar vika er síðan það hófst, verið bókaðir tæplega 750 flugleggir þar sem loftbrúin er nýtt. Því hefur ríkið niðurgreitt fargjöld fyrir tæpar fimm milljónir. Langstærsti hlutinn rennur til Air Iceland Connect enn sem komið er, eða um 700 flugleggir. Þá hafa rúmlega 30 viðskiptavinir Ernis nýtt sér afsláttinn. Meðalverð á fluglegg með afslættinum er um 16.600 krónur og algengustu flugleiðirnar sem bókaðar hafa verið eru frá Akureyri til Reykjavíkur og frá Egilsstöðum til Reykjavíkur.

Undanþágur fyrir börn og námsmenn sem hafa flutt lögheimili

Unnið er að því að útfæra þjónustuna þannig framhaldsskólanemar af landsbyggðinni sem stunda nám á höfuðborgarsvæðinu og hafa fært lögheimili sitt tímabundið þangað geti notfært sér Loftbrúna og bókað flug á lægra verði. Einnig fyrir börn sem eru með lögheimili á höfuðborgarsvæðinu en eiga foreldra eða forráðamenn sem hafa búsetu á landsbyggðinni.