Fyrrum forseti IAAF dæmdur í fangelsi fyrir spillingu

epa08672812 Lamine Diack (C), former president of the International Association of Athletics Federations (IAAF), arrives to the for the proclamation of his verdict in Paris, France, 16 September 2020. Diack is charged of multiple corruption charges, breach of trust, and money laundering charge.  EPA-EFE/Mohammed Badra
 Mynd: EPA-EFE - EPA

Fyrrum forseti IAAF dæmdur í fangelsi fyrir spillingu

16.09.2020 - 13:46
Lamine Diack, fyrrum forseti alþjóða frjálsíþróttasambandsins IAAF, hefur verið dæmdur í fjögurra ára fangelsi, þar af tvö ár skilorðsbundin, fyrir spillingu.

Diack, sem er 87 ára Senegali, var dæmdur fyrir að hafa þegið mútur frá íþróttamönnum, sem grunaðir voru um lyfjasvindl, til að falsa niðurstöður úr lyfjaprófum og leyfa þeim að halda áfram að keppa, til að mynda á Ólympíuleikunum í London 2012. Diack var handtekinn árið 2015 vegna tengsla við stórfellt lyfjasvindl meðal rússnesks íþróttafólks og hefur verið í stofufangelsi í Frakklandi síðan þá. Hann var forseti IAAF í 16 ár og Sebastian Coe, núverandi forseti sambandsins, tók við af honum.

Diack fékk hæstu mögulegu sekt, tæplega 500 þúsund evrur, sem samsvarar um 80 milljónum íslenskra króna. Frönsk yfirvöld rannsökuðu Diack í fjögur ár vegna ásakana um að hann hafi tekið við yfir þremur milljónum evra til að hylma yfir lyfjasvindl.

Diack var fyrst kjörinn í stjórn IAAF árið 1976 og varð varaforseti sambandsins árið 1991. Þegar sitjandi forseti IAAF, Primo Nebiolo, lést í embætti árið 1999 tók Diack við stjórnartaumunum innan IAAF og gegndi því embætti þar til haustið 2015.

Dómarinn í málinu sagði að Diack hefði með athæfi sínu grafið undan gildum íþrótta og baráttunni gegn lyfjasvindli.