Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Fundur stjórnskipunarnefndar tekinn af dagskrá í gær

Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd ráðgerði í gær að koma saman vegna erindis í máli egypsku fjölskyldunnar sem var gert að fara af landi brott í dag. Fundurinn var settur á dagskrá Alþingis en hann tekinn af dagskrá í gærmorgun eftir að fundinum var frestað. Það er meðal hlutverka nefndarinnar að rannsaka ákvarðanir og verklag skipaðra ráðherra.

Jón Þór Ólafsson, þingmaður pírata og formaður sjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, ræddi við fréttastofu vegna þessa í gær. 

„Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd barst erindi í gær um það að það sé mögulegt stjórnarskrárbrot að vísa börnum úr landi sem hafa fest hér rætur,“ sagði Jón Þór. „Stjórnarskráin segir nefnilega í 76. grein að það skuli tryggja þá vernd og umönnun sem velferð barna krefst. Ég fór og skoðaði þetta og þá grundvallast þar barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna um að það skuli setja hagsmuni barna í forgang varðandi allar ákvarðanir löggjafa eða stjórnvalda og svo hefur þetta verið útfært eins og það birtist í stjórnarskránni inn í íslensk lög í barnalög, barnaverndarlög og meðal annars útlendingalög.“

Einn gerði athugasemd við tímasetningu

Aðspurður hvers vegna fundurinn var tekinn út af dagskrá segir Jón Þór: „Þegar þing kemur ekki saman þá getur einn aðili, ef fundur er með stuttum fyrirvara, hafnað því að fundur fari á dagskrá,“ sagði Jón Þór. Taki velferðarnefnd þann vinkil að kalla til barnaverndarstofu og barnaverndaryfirvöld þá sé það fyrsta skrefið í ferlinu. Þá eru fagnefndirnar komnar með málið til umfjöllunar. „Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd tekur þá stóra vinkilinn til þess að samþætta þetta þannig að valdsviðin tali saman.“

Kehdr-fjölskyldan var ekki á fyrirfram ákveðnum stað þegar fulltrúar stoðdeildar ríkislögreglustjóra mættu þangað í morgun til að fylgja þeim úr landi. Ekki er vitað um dvalarstað fólksins og Jóhann K. Jóhannsson, samskiptastjóri Embættis ríkislögreglustjóra. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort lýst verði eftir fólkinu.

Valgerður Árnadóttir
Fréttastofa RÚV