Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Fullorðnir Bandaríkjamenn vita lítið um helförina

16.09.2020 - 14:54
epa05128631 A general view on the gate with sign 'Work sets you free', of the former Nazi-German concentration and death camp KL Auschwitz-Birkenau before ceremonies marking the 71st anniversary of the liberation of the former Nazi-German
Útrýmingarbúðir nasista í Auschwitz í Póllandi. Mynd: EPA - PAP
Nærri tveir af hverjum þremur Bandaríkjamönnum á aldrinum 18 til 39 ára vita ekki að sex milljónir gyðinga voru drepnir í helför nasista. Fleiri en einn af hverjum tíu telja gyðinga hafa valdið helförinni. 

Frá þessu er greint í niðurstöðum könnunar stuðningssamtaka eftirlifenda helfararinnar. Nærri fjórðungur svarenda var viss um að helförin væri mýta, eða sögur af henni séu ýktar. Tólf prósent svarenda sögðust aldrei hafa heyrt um helförina. Þá hafði yfir helmingurinn séð nasistatákn á samfélagsmiðlum eða í nágrenni sínu, og nærri helmingurinn séð færslur á samfélagsmiðlum þar sem helförin er sögð lygi. 

Hneykslaður og vonsvikinn

Gideon Taylor, formaður samtakanna sem gerði könnunina, segist hneykslaður á niðurstöðunum og þær valdi honum vonbrigðum. „Þær undirstrika hvers vegna við verðum að bregðast við nú þegar eftirlifendur helfararinnar eru enn meðal okkar og geta sagt sögur sínar," hefur Guardian eftir Taylor. „Við verðum að öðlast skilning á því af hverju við stöndum okkur ekki betur við að uppfræða yngri kynslóðir um helförina og draga lærdóm af fortíðinni," bætti Taylor við.

Staðan skást í Wisconsin

Könnunin var gerð í öllum ríkjum Bandaríkjanna. Henni var skipt í þrennt: Hvort svarendur hafi heyrt um helförina, hvort þeir geti nefnt gettó, þrælkunarbúðir eða útrýmingarbúðir á nafn, og hvort þeir viti að sex milljónir gyðinga hafi verið drepnir. Wisconsin kom best út. Þar gátu 42% svarenda svarað öllum þremur spurningunum játandi. Minnesota kom næst með 37 % svarenda og þá Massachusetts með 35%. Verst stóðu svarendur í Flórída, Mississippi og Arkansas sig, þar sem fimmtungur eða færri gátu svarað öllum þremur játandi.

63% svarenda á landsvísu vissu ekki að sex milljónir gyðinga hafi verið drepnir. Yfir þriðjungur taldi tvær milljónir eða færi hafa dáið. 
Næstum tveir af hverjum þremur svarenda töldu að saga helfararinnar ætti að vera skyldunám í skólum. Sjö af hverjum tíu sögðu óásættanlegt að einstaklingar aðhyllist skoðanir nýnasista.

Þúsund viðtöl voru tekin á landsvísu fyrir könnunina, auk þess sem 200 viðtöl voru tekin í hverju ríki fyrir sig. Fólk á aldrinum 18 til 39 ára var valið að handahófi.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV