Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Fleiri farið í felur fyrir brottvísun

Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson / RÚV
Aðstoðaryfirlögregluþjónn segir mál egypsku fjölskyldunnar, sem fór í felur til að forðast brottvísun í morgun, ekki einsdæmi. Skipulögð leit að fjölskyldunni er enn ekki hafin, en stoðdeild ríkislögreglustjóra ber að klára verkbeiðni Útlendingastofnunar, sem er að fylgja fólkinu úr landi.

 

Fjölskyldan kom til Íslands fyrir rúmum tveimur árum og sótti um alþjóðlega vernd. Útlendingastofnun hafnaði umsókninni í júlí í fyrra, sem var staðfest af kærunefnd útlendingamála. Til stóð að vísa þeim úr landi í morgun, en höfðu farið í felur þegar stoðdeild Ríkislögreglustjóra ætlaði að fylgja þeim út á flugvöll og er ekki vitað hvar þau eru niðurkomin.

Ekki þótti ástæða til að hafa sérstaka gæslu yfir fjölskyldunni eftir að það lá fyrir að henni yrði vísað úr landi. Guðbrandur Guðbrandsson er aðstoðaryfirlögregluþjónn stoðdeildar Ríkislögreglustjóra.

„Staðan er þannig að þessi framkvæmd sem var í gær og í nótt, hún heppnaðist ekki. Þannig að við erum byrjaðir á að skipuleggja næstu framkvæmd og erum að teikna upp hvernig landið liggur núna.“ 

Í hverju felst sú framkvæmd?

Það er þannig að þessi framkvæmd, eða verkbeiðni frá Útlendingastofnun, hún liggur enn þá frammi hjá stoðdeild. Okkur ber að klára hana.  Við erum ekki í einhverjum leitarflokkum um borgina hús úr húsi. Það er ekkert svoleiðis í gangi.“

En hafið þið einhverjar grunsemdir um hvar þau eru niður komin?

„Við erum bara að skoða þetta.“ segir Guðbrandur. Hann segir að í gegnum tíðina hafi það gerst að fólk sem vísa eigi úr landi fari í felur.

Eru einhverjir enn í felum sem hafa ekki fundist?

„Við erum með fólk eftirlýst innan lögreglukerfisins sem hafa komið sér undan framkvæmd. Hvort að það sé á landinu enn þá er alls óvíst.“

Eru mörg slík dæmi?

Ég bara hef ekki þá tölu eins og er.“ segir Guðbrandur.

Ekki er hafin formleg leit að egypsku fjölskyldunni. Magnús Norðdahl, lögmaður fjölskyldunnar sagði í fréttum í dag að ríkislögreglustjóri hefði haft sex vikur til að flytja fólkið úr landi á gildum skilríkjum, en í yfirlýsingu frá stoðdeildinni sem barst síðdegis segir að Útlendingastofnun hafi beðið um flutning fólksins tveimur vikum fyrir þann tíma, en það hafi ekki dugað til að skipuleggja flutninginn. Tvær enduruppstökubeiðnir vegna fjölskyldunnar eru á borði Kærunefndar útlendingamála.