Hvasst var orðið við strönd Alabama í gær. Mynd: EPA-EFE - EPA
Fellibylurinn Sally hefur færst í aukana á Mexíkóflóa og telst nú annars stigs fellibylur. Miðja fellibylsins var í morgun rúmlega 100 kílómetra suð-suðaustur af borginni Mobile í Alabama.
Víða er hvasst í strandhéruðum í suðurríkjum Bandaríkjanna og er hætta talin á sjávarflóðum í Mississippi, Alabama og á Flórídaskaga. Þar er nú víða rafmagslaust, en í nótt voru um 75.000 heimili í Alabama og á Flórídaskaga án rafmagns. Búist er við að fellibylurinn fari inn yfir land síðar í dag.