Felldu tillögu um húsnæði í Keldum og Örfirisey

16.09.2020 - 14:21
Mynd með færslu
 Mynd: Álfheiður Magnúsdóttir - Flickr
Tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um uppbyggingu hagkvæms húsnæðis fyrir almennan markað í Keldum og Örfirisey var felld á borgarstjórnarfundi í gær.

Tillagan fól í sér að heimilt yrði að breyta aðalskipulagi Reykjavíkurborgar sem heimilar íbúðabyggð í Keldnalandinu annars vegar og Örfirisey hins vegar.  Samhliða þessu yrði farið í að skipuleggja atvinnulóðir á Keldum.

„Vinstrimeirihlutinn í Reykjavík gengur út frá því að byggðar verði 4.000 íbúðir á flugvallarsvæðinu. Ekkert bendir hins vegar til þess að það verði mögulegt á næstu 10-20 árum, þar sem annað flugvallarstæði liggur ekki fyrir. Aukinheldur mun niðursveiflan vegna kórónuveirunnar gera fjármögnun nýs flugvallar enn ólíklegri. Með öðrum orðum er stórt gat í húsnæðisáætlun borgarinnar upp á 4.000 íbúðir. Augljós valkostur er að leyfa byggingu hagkvæms húsnæðis í Örfirisey í Vesturbænum annars vegar og á Keldnalandinu hins vegar,“ segir í tillögunni.

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, sagði gert ráð fyrir í áfangaskiptingu að Keldnalandið gæti byrjað í þróun um 2030 því þá eigi áfangi um Borgarlínu að ná þangað. Hann sagði skipulagið háð því samhengi.

Mynd með færslu
 Mynd: Grafík - RÚV

Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, borgarfulltrúi Pírata og formaður skipulags- og samgönguráðs, mælti gegn tillögunni á fundinum.

„Frábært svæði eins og það er í dag“

„Örfirisey hentar ekki sem íbúðaruppbyggingasvæði eins og er. Hún er stærsta fiskveiðihöfn landsins. Við viljum vernda hana, við viljum vernda atvinnusvæðið og styrkja atvinnuuppbyggingu í Örfirisey. Þetta er frábært svæði eins og það er í dag. Við erum að skoða aukna auppbyggingarmöguleika sem sátt ríkir um, sem er gaman að skuli vera í skipulags- og samgönguráði,“ sagði hún.

Borgarfulltrúar veittu andsvör eftir ræðu Sigurborgar sem hún svaraði. Þá kvaddi Dóra Björt borgarfulltrúi Pírata sér máls og viðraði kenningar sínar um að uppbygging nýs miðbæjar á Selfossi væri fyrir tilstuðlan Eyþórs Laxdal Arnalds vegna þess að henni virtist sem fyrrum oddviti Sjálfstæðisflokksins á Selfossi hefði „fengið fleiri hundruð millj­óna að gjöf frá Sam­herja í gegn­um fyr­ir­tæki sem hef­ur verið notað sem mútu­fé­lag.“

Dóra Björt sagði að komið hafi í ljós að Sam­herji standi að baki upp­bygg­ingar í miðbæn­um á Sel­fossi. Stundin greindi frá því í ágúst að Kristján Vilhelmsson, annar stærsti eigandi útgerðarfélagsins Samherja, færi með helmingshlut fasteignafélaginu Austurbær sem kemur að uppbyggingu miðbæjarins. 

„Hér gæti verið kom­in ein ástæða þess að Sam­herji gaf Eyþóri Arn­alds borg­ar­full­trúa svo drjúga gjöf sem stór hluti í Morg­un­blaðinu er,“ sagði hún. 

Eyþór Arnalds svaraði Dóru Björt á þessa leið: 

„Hér dylgjar hún algerlega út í loftið og verður sjálfri sér til minnkunar um miðbæ Selfoss og greiðslur og fleira sem er ekki bara henni til vansæmdar heldur öllum hérna inni  salnum. Einfalt gúggl fyrirpíratann, borgarfulltrúann Dóru Björt, hefði getað sýnt henni fram á það að samsæris kenningin um skipulag miðbæjar Selfoss er ekki mjög heppileg því það var samþykkt í íbúakosninum 2018, fjórum árum eftir að ég hætti í bæjarstjórn, eftir að ég flutti til Reykjavíkur. Og byggingarleyfi fyrir miðbæinn voru gefin út af vinstri meirihluta og Miðflokkurinn var með. Sjálfstæðisflokkurinn var ekki einu sinni þar og ég kom hvergi nærri því.“

Valgerður Árnadóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi