Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Ekki þótti ástæða til að hafa gæslu með fjölskyldunni

Mynd með færslu
 Mynd: Hjalti Haraldsson - RÚV
Ekki er vitað um dvalarstað Kehdr-fjölskyldunnar frá Egyptalandi, sex manna barnafjölskyldu, sem vísa átti úr landi í morgun. Tvær beiðnir um endurupptöku brottvísunarinnar eru á borði Kærunefndar útlendingamála. Lögmaður fjölskyldunnar segir að þessi nýja staða hafi engin áhrif á lagalega stöðu fjölskyldunnar.

Kehdr-fjölskyldan var ekki á fyrirfram ákveðnum stað þegar fulltrúar stoðdeildar ríkislögreglustjóra mættu þangað í morgun til að fylgja þeim úr landi. Ekki er vitað um dvalarstað fólksins og Jóhann K. Jóhannsson, samskiptastjóri Embættis ríkislögreglustjóra, sagði skömmu fyrir hádegi að leit að fjölskyldunni væri ekki hafin. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort lýst verði eftir fólkinu.

Hann segir að ekki hafi þótt ástæða til að hafa gæslu með fjölskyldunni.

Sema Erla Serdar, formaður hjálparsamtakanna Solaris, segir það sjaldan gerast að fólk fari í felur þegar vísa á því úr landi. Það sé algert neyðarúrræði.  „Það sem mér finnst svo átakanlega sorglegt í þessu öllu saman er að þau koma hingað með börnin sín í leit að skjóli og vernd vegna þess að þau eru að flýja ofsóknir stjórnvalda í heimalandinu. Nú hafa þau lagt á flótta á Íslandi vegna íslenskra yfirvalda. Og það er auðvitað bara staða sem við verðum virkilega að íhuga hvernig við lendum í,“ segir Sema Erla.

Tvær beiðnir um endurupptöku á borði Kærunefndar

Tvær beiðnir um endurupptöku brottvísunarinnar eru á borði Kærunefndar útlendingamála. Hjörtur Bragi Sverrisson, formaður nefndarinnar, segir að gögn í máli fjölskyldunnar hafi ekki gefið tilefni til að óska eftir frestun brottvísunar.

„Við getum frestað flutningi ef við teljum gögnin í endurupptökubeiðninni bendi til þess að verulega breyttar aðstæður hafi skapast. Og í gær fundaði nefndin og skoðaði það mál; hvort breyttar aðstæður hefðu skapast og komst að þeirri niðurstöðu að svo væri ekki. Þannig að nefndin ákvað að grípa ekki inn í og stöðva flutninginn,“ segir Hjörtur.

„Þetta mál heldur bara áfram“

Magnús D. Norðdahl lögmaður fjölskyldunnar segir að lagaleg staða fjölskyldunnar breytist ekki við að þau hafi ekki fundist í morgun. Hann segist vona að þau séu örugg. „Óháð þeirri stöðu sem nú er komin upp í málinu, það er að segja að þau finnist ekki, þá heldur þetta mál bara áfram. Það hefur alltaf staðið til að láta reyna á þetta mál í heild sinni fyrir dómi þar sem krafist verður ógildingar á þeim úrskurðum Kærunefndar útlendingamála sem þegar hafa verið kveðnir upp og þá væntanlega eins þeim úrskurðum sem við enn bíðum eftir,“ segir Magnús.