CBS tryggir sér sjónvarpsþætti eftir bók Ragnars

Mynd með færslu
 Mynd: Bjartur - Veröld

CBS tryggir sér sjónvarpsþætti eftir bók Ragnars

16.09.2020 - 16:50

Höfundar

Bandaríska sjónvarpsfyrirtækið CBS Studios hefur tryggt sér fyrsta réttinn að sjónvarpsþáttaröð sem fyrirhugað er að gera eftir bók Ragnars Jónassonar, Dimmu. Búið er að ráða handritshöfund og mun True North koma að framleiðslunni hér á landi.

Þetta kemur fram á vef Deadline.  Þar segir enn fremur að reiknað sé með að tökur fari fram á Íslandi.  Rætt verður við Ragnar í 22-fréttum Sjónvarps í kvöld.

Framleiðslufyrirtækið Stampade, sem er eigu fyrrverandi forstjóra Warner Brothers, keypti réttin að bók Ragnars í mars á síðasta ári.  Nú er skriður kominn á málið því handritshöfundinum Andrea Janakas hefur verið falið að skrifa handrit að þáttunum. 

Dimma segir frá rannsóknarlögreglukonunni Huldu Hermannsdóttur sem er að láta af störfum fyrir aldurs sakir. Hún fær hálfan mánuð til að leysa mál ungrar rússneskrar konu sem finnst látin á Vatnsleysuströnd en margt bendir til þess að hún hafi verið myrt.