Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Breivik biður um reynslulausn

16.09.2020 - 13:31
epa05709061 Anders Behring Breivik (2-L) enters the courtroom at the appeal case in Borgarting Court of Appeal at Telemark prison in Skien, Norway, 10 January 2017. The Norwegian Ministry of Justice and Breivik have both appealed the Oslo District Court&
 Mynd: EPA - NTB Scanpix
Norski hryðjuverkamaðurinn Anders Behring Breivik, sem varð 77 að bana í júlí árið 2011, hefur sótt um reynslulausn úr fangelsi. Jafnframt ætlar hann að lögsækja norska ríkið vegna aðbúnaðar í fangelsinu.

Lögmaður Breiviks, Oysten Storrvik, segir í samtali við Verdens Gang að hann hafi sent yfirvöldum ósk um reynslulausn. Breivik eigi rétt á að beiðnin sé tekin fyrir þegar hann hefur setið af sér lágmarksrefsingu, sem í hans tilviki er tíu ár. Þetta sé réttur allra fanga og hann vilji láta reyna á hann, hefur VG eftir Storrvik.

Storrvik segir að skjólstæðingur hans ætli einnig að sækja mál gegn ríkinu öðru sinni til þess að mótmæla því að vera langdvölum í einangrun. Hann gerði slíkt hið sama árið 2016 og sagði þá að aðbúnaður hans í fangelsinu væri brot á mannréttindasáttmála Evrópu.

Breivik var dæmdur í 21 árs fangelsi árið 2012, sem þá var þyngsti dómur í norskri réttarsögu. Dóminn má þyngja að vild. Hann kom fyrir sprengju í miðborg Óslóar sem varð átta að bana. Á meðan lögreglan sinnti því fór Breivik til Úteyjar þar sem ungliðar Verkamannaflokksins voru saman komnir. Hann dulbjó sig sem lögreglumaður og skaut 69 til bana á eynni.

Breiviki situr inni í fangelsinu á Skien í Noregi. Þar hefur hann aðgang að þremur klefum sem hver um sig er tíu fermetrar. Útsýni er úr klefunum og hann er með æfingaaðstöðu, getur spilað tölvuleiki og horft á sjónvarp.

Að sögn Verdens Gang vildi Lisbeth Kristine Røyneland, formaður samtaka aðstandenda fórnarlamba hryðjuverka Breiviks, ekki tjá sig um málið.