Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Arnhildur og Kári verðlaunuð á Degi íslenskrar náttúru

Mynd með færslu
 Mynd: Umhverfisráðuneytið
Arnhildur Hálfdánardóttir, fréttamaður á fréttastofu RÚV, hlaut fjölmiðlaverðlaun umhverfis- og auðlindaráðuneytisins á Degi íslenskrar náttúru í dag. Verðlaunin fékk hún fyrir þáttaröðina Loftslagsþerapíuna sem var á dagskrá Rásar 1 síðasta vetur.

Kári Kristjánsson fékk Náttúruverndarviðurkenningu Sigríðar í Brattholti við sama tilefni. Hann hefur stundum verið kallaður landvörður Íslands, enda hefur hann sinnt náttúruvernd af miklum áhuga og eldmóði undanfarna áratugi.

Dagur íslenskrar náttúru er haldinn á hverju ári á afmælisdegi Ómars Ragnarssonar sem er áttræður í dag. Hann tók við blómum frá Guðmundi Inga Guðbrandssyni, umhverfis- og auðlindaráðherra, í tilefni dagsins.

Mynd með færslu
Ómar Ragnarsson tók við blómum.

Einstökum hæfileikum gæddur

Í umsögn dómnefndar um viðurkenningu Kára segir að hann hafi djúpt innsæi og skilning á náttúrunni, menningu og sögu. „[H]ann er einstökum hæfileikum gæddur til að miðla þekkingu sinni til annarra.“

„Kári hefur þróað aðferð til að flytja til gamburmosaþembur og koma þeim fyrir þar sem álagssár og villustígar hafa myndast og þannig náð að loka ljótum sárum, einkum í kringum Lakagíga, einu viðkvæmasta svæði íslenskrar náttúru,“ segir enn fremur í umsögninni.

Mynd með færslu

„Þá er gestamóttaka sem stunduð er af landvörðum í Lakagígum úthugsað hugarfóstur Kára og aðferðarfræði sem smám saman er að breiðast út um allt land þar sem tekið er á móti hverjum einasta gesti og hann upplýstur um undur svæðisins, umgengnisreglur og verndargildi.“

Rýnir í viðbrögð og líðan fólks

Í rökstuðningi dómnefndar segir að með þáttum Arnhildar hafi hún skoðað ýmsa snertifleti loftslagsbreytinga við hið mannlega, meðal annars pólitík og siðferði. „Fyrst og fremst rýnir Arnhildur þó í viðbrögð og líðan fólks.“

„Hún skoðar pólitíkina í kringum loftslagsmálin og spyr hvort hún sé hluti af lausninni eða standi í vegi fyrir henni og hún reynir að kryfja vandann með hjálp siðfræðinnar og trúarbragða,“ segir í rökstuðningnum.

Í fréttatilkynningunni um verðlaunin segir að Arnhildi hafi tekist með bæði orðum og tónum að nálgast staðreyndir um eitt mest aðkallandi umfjöllunarefni samtímans á hlýjan og listrænan hátt.

Þættina má enn nálgast í helstu hlaðvarpsöppum.

Í dómnefndinni fyrir fjölmiðlaverðlaunin sátu Margrét Marteinsdóttir formaður, Kjartan Hreinn Njálsson og Sveinn H. Guðmarsson.

birgirthh's picture
Birgir Þór Harðarson
Fréttastofa RÚV