Árásarmaður einnig þolandi í líkamsárás

Lögreglustöðin við Hverfisgötu hefur verið lagfærð að utan.
 Mynd: RÚV - Þ
Maður var í gær kærður fyrir hótanir og líkamsárás sem átti sér stað í Kópavogi klukkan hálf sex í gærkvöldi. Maðurinn sem hafði veitt þolanda áverka á hendi og bringu var farinn af vettvangi þegar lögregla kom. Um fjörutíu mínútum síðar hafði lögregla uppi á honum eftir að önnur tilkynning barst um líkamsárás þar sem fjórir menn réðust á hinn kærða og skemmdu bíl hans.

Maðurinn fór á bráðadeild til aðhlynningar og var handtekinn og vistaður í fangageymslu lögreglu í nótt. Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Þá stöðvaði lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fjóra ökumenn grunaða um akstur undir áhrifum fíkniefna frá klukkan fimm síðdegis í gær og tvö í nótt  og einn fyrir ölvunarakstur.

Tilkynnt var um hnupl í Austurstræti og innbrot og þjófnað í bílageymslu í Kópavogi.

Valgerður Árnadóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi