Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Áhyggjufullur því aðeins eitt smit var í sóttkví

16.09.2020 - 11:59
Mynd með færslu
 Mynd: Almannavarnir
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefur áhyggjur af því að aðeins einn þeirra tólf sem greindust í einkennaskimun í gær hafi verið í sóttkví. Þrettán innanlandssmit greindust í gær, þar af eitt í skimun hjá Íslenskri erfðagreiningu.

Þessi mikli fjöldi smita utan sóttkvíar getur bent til þess að dreifing veirunnar sé meiri en sóttvarnayfirvöld héldu. Það vekur einnig áhyggjur hjá sóttvarnalækni.

„Það sem maður hefur mestar áhyggjur af er að það skuli hafa verið einn í sóttkví við greiningu,“ segir Þórólfur. „Flest af þessum tilfellum voru þess eðlis að þau hafa ekki tengsl við þekkt tilfelli sem getur bent til þess að dreifing á veirunni væri kannski meiri en við héldum og það er það sem vekur ákveðnar áhyggjur.“

Þórólfur hvetur alla til þess að gæta að einstaklingsbundnum sóttvörnum. Og þeir sem eru með einhver einkenni eiga ekki að mæta til vinnu. „Það eru kannski vísbendingar um að fólk sé ekki alveg að passa sig. Þessi veira er fljót að koma í bakið á okkur ef við gætum ekki að okkur.“

Ekki hafa greinst jafn mörg innanlandssmit á einum degi síðan eftir verslunarmannahelgi í byrjun ágúst. Þá var önnur bylgja faraldursins hér á landi að ná hámarki, en ekki hefur tekist að kveða hana eins hratt niður og fyrstu bylgjuna í vor. Þessi síðari bylgja hefur þegar varað lengur en fyrri bylgja faraldursins hér á landi.

Undanfarna daga hafa fjórir til fimm einstaklingar greinst sem tengjast Háskóla Íslands. Því hefur ákveðið að fara í skimun í Háskólanum á vegum Íslenskrar erfðagreiningar. Þá verði farið í handahófskennda skimun á höfuðborgarsvæðinu. Öll smitin sem greindust í gær voru á höfuðborgarsvæðinu.

„Til þess að sjá hver útbreiðslan raunverulega er, við verðum að gera það núna annars getum við fengið enn meiri útbreiðslu eftir nokkrar vikur sem verður enn erfiðara að ráða við,“ segir Þórólfur.

Spurður hvort þetta sé ný hópsýking segir Þórólfur erfitt að segja til um það á meðan einstök smit tengist ekki með augljósum hætti. „En það er greinilegt að veiran er útbreidd út í samfélaginu. Þetta er sami stofn af veirunni sem við höfum verið að greina undanfarið. Þannig að veiran hefur náð að dreifa sér um landið og nær að skjóta upp kollinum af og til. Þetta gæti verið vísbending um að eitthvað meira geti verið í aðsigi.“