Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Afkoma sjávarútvegs sterk þrátt fyrir loðnubrest

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Rekstur íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja gekk vel í fyrra. Þetta er niðurstaða byggð á ársuppgjörum fyrirtækja sem hafa yfir að ráða tæplega 90 prósentum af úthlutuðu aflamarki sköluðum upp í 100 prósent. Jónas Gestur Jónasson, löggiltur endurskoðandi hjá Deloitte, fór yfir afkomu sjávarútvegsfyrirtækja 2019 .

Hagnaður jókst um 16 milljarða milli ára

„Afkoman hefur verið sterk undanfarin tvö ár og sérstaklega á síðasta ári þegar EBITDA jókst umtalsvert um þrátt fyrir algeran loðnubrest,“ sagði Jónas Gestur í útsendingu á Sjávarútvegsdeginum í dag. 

Heildartekjur í sjávarútvegi námu 280 milljörðum króna í fyrra og jókst framlegð hlutfallslega úr 22% í 26% og náði aftur sama framlegðarhlutfalli og árið 2015.  Hagnaður var rúmir 43 milljarðar króna miðað við 27 milljarða hagnað 2018.

Fjárfest fyrir að meðaltali 22 milljarða 

Fjárfestingar í sjávarútvegi hafa undanfarin fimm ár numið 110 milljörðum króna, að meðaltali 22 milljörðum króna á ári.

„Það er ljóst að greinin er að njóta ábata af þeim miklu fjárfestingum sem hefur verið ráðist í bæði í skipum og fiskvinnslu. Þá er jafnframt þekkt að veikari króna styður útflutningsgreinar eins og sjávarútveg,“ sagði Jónas Gestur.

Verðvísitala sjávarafurða í íslenskri mynt hækkaði um 15% frá 2018 sem skýrist af gengislækkun krónunnar sem veiktist um 9% í fyrra en einnig hækkaði verð á erlendum sjávarafurðum.

Frekari samþjöppun í greininni líkleg

Heildarskuldir voru 415 milljarðar og hækkuðu um 26 milljarða milli ára, en hlutfall skulda af EBIDTA var 5,6 og hefur það lækkað hratt frá frá 2017 þegar það var 9,0. Nettó vaxtaberandi skuldir eru um fjórum sinnum EBIDTA. 
„Þetta er auðvitað áhyggjuefni,“ sagði Jónas Gestur „og er líklegt að við sjáum frekari samþjöppun í greininni eins og verið hefur undanfarin ár.“

 

Útflutningsverðmæti fiskeldis nánast tvöföld

Veruleg aukning hefur verið í framleiðslu í fiskeldi frá 2015 og voru útflutningsverðmæti í fiskeldi í fyrra um 25 milljarðar króna, nánast tvöfalt meira en 2018. Tekjur námu þar tæpum 30 milljörðum króna og framleitt magn jókst úr rúmum 19 þúsund tonnum í 34 þúsund tonn.

 

Veiðigjöld hækki 2021

Fjárhæð veiðigjalds fór úr 11,3 milljörðum króna í 6,6 milljarða króna. Á viðmiðunarárinu 2017 námu heildartekjur í sjávarútvegi 235 milljörðum króna og afkoma óviðunandi. Afkomutölur ársins 2019 eru grundvöllur veiðigjalda fyrir 2021. „Gera má ráð fyrir að veiðigjöldin muni hækka í janúar,“ segir Jónas Gestur.

Reiknaður tekjuskattur hækkar um 50%, úr 6 milljörðum króna í 9 milljarða króna. Arðgreiðslur námu 10,7 milljörðum króna, borið saman við 12,3 milljarða króna árið 2018 og er hlutfall arðgreiðslna af bókfærðu eigin fé á tímabilinu 2014 til 2019, 4 til 7 prósent.

Í tilkynningu frá SFS er tekið fram að arðgreiðslur sem hlutfall af hagnaði hafa að meðaltali verið lægri í sjávarútvegi en í viðskiptahagkerfinu almennt á undanförnum árum.