Upphafið markar upphaf leikársins í Þjóðleikhúsinu

Mynd: RÚV / Menningin

Upphafið markar upphaf leikársins í Þjóðleikhúsinu

15.09.2020 - 17:28

Höfundar

„Það er búið að vera ótrúlega skemmtilegt í leikhúsinu og við höfum nýtt tímann vel,“ segir Magnús Geir Þórðarson sem tók við starfi Þjóðleikhússtjóra rétt áður en COVID-19 skall á og hefur skiljanlega sett stórt strik í reikning leikhúsanna. Fyrsta sýningin eftir lokunina fer á fjalirnar um helgina í Kassanum.

„Við þurftum að laga okkur að þessum skrítnu aðstæðum og það vildi svo til að við vorum að undirbúa heilmiklar breytingar,“ segir Magnús Geir við Síðdegisútvarpið. „Við fengum kannski meira næði til að undirbúa þær, bæði breytingar á húsnæðinu og hvernig við vinnum og dagskránni er stillt upp. Þannig við mætum tvíefld til leiks núna og iðum í skinninu að geta aftur farið að leika og mæta áhorfendum.“

Þjóðleikhúsið fagnaði 70 ára afmæli í vor í miðju COVID og Magnús Geir segir leikhúsið hafa markað tímamót í sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar. Nú sé eins konar nýtt upphaf þegar leikhúsið opnar aftur, þó að leiklistin hafi í raun lítið breyst í mörg árþúsund. „Fólk kemur saman og segir sögur, þetta er lifandi form sem snýst um samveru og leikara sem skapa augnablik og töfra á sviðinu. Svo leysist allt úr læðingi þegar áhorfendur mæta í salinn.“ Sögurnar breytist hins vegar með tímanum og það sé eitt helsta viðfangsefni leikhússins að greina hvaða sögur eiga erindi á hverjum tíma.

Magnús Geir segir mikla breidd í verkum á leikárinu. „Það verður hlegið og það verður grátið. Við erum með blöndu af erlendum og innlendum, nýjum og gömlum, gaman og alvöru, barna- og fullorðinsverkum. En það er óvenju mikið af nýjum íslenskum verkum sem er í takt við nýjar áherslur. Við viljum segja sögur úr okkar veruleika.“ Sem dæmi um það sé nýtt verk eftir Ólaf Egil Egilsson byggt á ævi skáldkonunnar Ástu Sigurðardóttur sem sé kraftmikil Reykjavíkursaga úr náinni fortíð. Þá nefnir hann leikgerð Unnar Aspar Stefánsdóttur af Vertu Úlfur og Kópavogskróniku eftir Kamillu Einarsdóttur sem sé drepfyndin og fjörug Kópavogssaga.

Ein af áherslubreytingunum er að reyna að fá yngra fólk í leikhús með lækkuðu miðaverði fyrir fólk undir 25 ára aldri. „Þá erum við að lækka miðaverð, næstum niður í bíóverð. Við lítum á það sem eitt af okkar stærstu áskorunum að laða unga fólkið að Þjóðleikhúsinu.“ Þá sé verið að gjörbreyta nálgun í Þjóðleikhúskjallaranum, svið í miðjunni og kabarett-stemning, auk þess að taka í gagnið nýtt rými: „Loftið, það er svona tilraunarými til að þróa verk fyrir yngri áhorfendur.“ Þá var einnig ráðist í endurnýjun á aðstöðu gesta, veitingaþjónustu, húsgögnum, innréttingum og lýsingu. „Með það fyrir augum að upphefja glæsilega hönnun Guðjóns Samúelssonar, en á sama tíma mæta kröfum dagsins í dag um þægindi og veitingar.“

Um helgina verður leikritið með hinn mjög svo viðeigandi titil Upphaf frumsýnt í Kassanum. „Þetta er saga af tveimur manneskjum að nálgast fertugsaldurinn og þau eru tvö eftir í partíi sem var að ljúka. Svo fylgjumst við með þeim í rauntíma og sjáum hvort þetta sé raunverulega nýtt upphaf.“

Gunnhildur Arna Gunnarsdóttir og Hrafnhildur Halldórsdóttir ræddu við Magnús Geir Þórðarson í Síðdegisútvarpinu.

Tengdar fréttir

Leiklist

Hilmir Snær ráðinn til Þjóðleikhússins

Leiklist

Vigdís og Unnur í aðalhlutverkum Ferrante-sýningar

Leiklist

Gróðurhús hæfileika og heimsbókmennta í 70 ár

Leiklist

RÚV og Þjóðleikhúsið bjóða landsmönnum í leikhús