Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

„Þyngra en tárum taki“ að kerfið hafi brugðist

Mynd: Hjalti Haraldsson / Hjalti Haraldsson
Málum tveggja kvenna, sem létust úr krabbameini eftir að hafa farið í krabbameinsskimanir sem gáfu tilefni til nánari skoðunar en ekki fór fram, á að vísa til Landlæknis. Málin ná aftur til ársins 2013.

Láðist að upplýsa konunna um niðurstöðu sýnatöku

Önnur kvennanna var á fertugsaldri þegar hún fór í sýnatöku hjá Krabbameinsfélaginu árið 2016. Sævar Þór Jónsson, lögmaður fjölskyldna kvennanna, segir að sýnatakan hefði átt að gefa tilefni til frekari skoðunar, en hún var aldrei gerð og konan lést á þessu ári. Málinu var vísað til embættis landlæknis í dag. Hitt málið verður sent til embættisins á morgun. Það varðar konu sem fór í sýnatöku árið 2013. Þar greindust frumubreytingar sem láðist að láta konuna vita af.

„Sem er frábrugðið af því leytinu til að þar er ekki haft samband við viðkomandi aðila, það er frá árinu 2013. Það sýni gaf tilefni til að gripið yrði til einhverra aðgerða en einhverra hluta vegna, og við höfum ekki skýringar á því, var ekki haft samband við viðkomandi sem veikist síðan alvarlega sex mánuðum síðar og er látin 2017 og það er 24 ára gömul kona. Það er þyngra en tárum taki að þurf að horfa upp á það að ungt fólk hafi farið í gegnum þetta ferli, treyst því, og það hafi brugðist.

Óvissa og ótti meðal kvenna

Krabbameinsfélagið endurskoðar nú sýni frá þúsundum kvenna sem fóru í leghálsskimun árin 2017 og 2018 eftir að kona, sem fór í sýnatöku árið 2018 og fékk þá niðurstöðu að ekkert væri athugavert, greindist með ólæknandi krabbamein. Félagið telur að allt að 150 konur hafi fengið ranga greiningu á leghálssýni. Um 30 mál eru á borði Sævars, sem segir allt benda til að mistök hafi verið gerð við greiningu sýna í mörg ár og þar sé um að kenna verkferlum, ekki einstaka starfsmönnum. Endurskoða þurfi sýni langt aftur í tímann.

„Það er ákveðin óvissa og ótti meðal kvenna varðandi stöðuna hjá Krabbameinsfélaginu og ég held að það þurfi, bara til þess að eyða þeirri óvissu og ótta, að grípa inn í með afgerandi hætti og tryggja það að fólk geti treyst því að þessi starfsemi sé að virka, “ segir Sævar Þór.

Hvetja konur til að mæta í skimun

Krabbameinsfélagið sendi fréttastofu yfirlýsingu vegna málsins fyrir stundu. Félagið vill árétta að skimun er hvergi í heiminum 100% forvörn gegn krabbameinum. Hún sé engu að síður ein mikilvægasta forvörnin. Afar mikilvægt sé að konur nýti sér boð i skimun líkt og landlæknir hvatti til í fréttum RÚV nýverið.