Þrjú af sex smitum tengjast Háskóla Íslands

Mynd með færslu
 Mynd: Viðar Hákon - RÚV
Þrjú af þeim sex smitum sem greindust í gær og greint var frá á covid.is í dag tengjast Háskóla Íslands. Þetta staðfestir Kjartan Hreinn Njálsson, aðstoðarmaður landlæknis. Hámu á Háskólatorgi var lokað í gær eftir að starfsmaður þar greindist með kórónuveiruna og rektor skólans er í sóttkví ásamt tveimur öðrum eftir að starfsmaður reyndist smitaður af COVID-19.

Kjartan Hreinn segir að samkvæmt upplýsingum frá smitrakningateyminu sé talið líklegt að það verði fleiri smit tengd háskólanum. Enn sé verið að rekja smitin og setja fólk í sóttkví og ekki sé hægt að segja strax til um hvort í uppsiglingu sé hópsýking. „Rakningin er töluvert flókin og það er of snemmt að leggja mat á það hvert umfangið er nákvæmlega.“

Hámu á háskólatorgi var lokað í gær eftir að starfsmaður greindist þar með kórónuveirusmit. Rebekka Sigurðardóttir, upplýsingafulltrúi Félagsstofnunar Stúdenta sem rekur Hámu, vildi ekki tjá sig frekar um málið og vísaði á yfirlýsingu sem send var fjölmiðlum í gær. Farið hefði verið í einu og öllu eftir leiðbeiningum sóttvarnayfirvalda.

Í orðsendingu frá rektor HÍ í hádeginu í dag kemur fram að smitrakningateymið meti áhættu viðskiptavina Hámu óverulega og þeir þurfi því ekki að fara í sóttkví.

Háma á Háskólatorgi er stærsti matsölustaðurinn á háskólasvæðinu og þar er allur heitur matur eldaður fyrir matsölur og kaffistofur stúdenta sem ganga undir Hámunafninu. 

Jón Atli Benediktsson, rektor HÍ, er í sóttkví eftir að kórónuveirusmit greindist í aðalbyggingunni um helgina. Tveir aðrir starfsmenn skólans eru einnig í sóttkví og hafa starfsstöðvar þeirra þriggja verið „sótthreinsaðar rækilega,“ eins og Jón Atli orðaði það í orðsendingu til nemenda. Hann lagði jafnframt áherslu á að gripið hefði verið til allra nauðsynlegra ráðstafana.

Alls greindust sex með staðfest smit í gær. Þrír voru þegar í sóttkví. 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi