Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Þingnefnd ræðir mál egypsku fjölskyldunnar

15.09.2020 - 06:55
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis fær fulltrúa dómsmálaráðuneytisins og Útlendingastofnunar á sinn fund í dag til að ræða mál egypskrar fjölskyldu sem flytja á úr landi eftir að henni var synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi. Umræðan um málefni fjölskyldunnar í allsherjar- og menntamálanefnd er að beiðni Guðmundar Andra Thorssonar, þingmanns Samfylkingarinnar.

„Við kannski gerum okkur ekki vonir um að þessi fundur einn og sér breyti málsmeðferð í þessu tiltekna máli en hann verður kannski með öðru til þess að stjórnvöld finni leiðir til að hjálpa þessari fjölskyldu að byggja upp líf sitt á Íslandi og hjálpa þessum börnum til þess að halda áfram sinni skólagöngu og halda áfram að skapa sér líf og tilveru hér á landi eins og þau eru byrjuð á,“ segir Guðmundur Andri.

Þingmaðurinn segir að það geti ekki verið börnum fyrir bestu að fylgja foreldrum sínum út í hvaða aðstæður sem. Hann segir að það sé börnum fyrir bestu að foreldrar þeirra búi við öryggi og geti þá búið börnum sínum sem bestar aðstæður. „Ég held að þess vegna sé það börnunum fyrir bestu að foreldrarnir fái skjól hér á Íslandi en séu ekki rekin út í óvissu.“

Brottvísun fjölskyldunnar hefur vakið hörð viðbrögð. Meðal annars gagnrýndi skólastjórinn í grunnskóla tveggja barnanna félags- og barnamálaráðherra fyrir að koma ekki í veg fyrir brottvísunina.