Stór hluti starfsfólks Kristjánsbakarís endurráðinn

15.09.2020 - 09:12
Mynd með færslu
 Mynd: Úlla Árdal - RÚV
Stór hluti starfsmanna í Kristjánsbakaríi á Akureyri hefur verið endurráðinn. Öllum var sagt upp í skipulagsbreytingum í vor. Framkvæmdastjóri segir bjartsýni ríkja hjá starfsfólki og stjórnendum.

Stór hluti starfsmanna Kristjánsbakarís sem var sagt upp í júní var endurráðinn að loknum skipulagsbreytingum. Vilhjálmur Þorláksson, framkvæmdastjóri Gæðabaksturs, sem á og rekur Kristjánsbakarí segir í samtali við Morgunblaðið í dag að fyrirtækið hafi snúið vörn í sókn. 

Öllu starfsfólki Kristjánsbakarís á Akureyri, 35 talsins, var sagt upp í júní vegna endurskipulagningar á rekstrinum. Þá kom fram að reynt yrði að endurráða sem flesta starfsmenn að henni lokinni. Stór hluti þeirra sem var boðin endurráðning þáði það en við endurskipulagninguna fækkaði um fjögur stöðugildi.

„Við ætl­um að inn­leiða nýj­ung­ar fyr­ir norðan sem gengið hafa vel á höfuðborg­ar­svæðinu.“ segir Vilhjálmur í samtali við Morgunblaðið. Bjartsýni ríki hjá starfsfólki og stjórnendum. Við endurskipulagningu sé hægt að skipta úr varnarleik yfir í sóknarleik.

Úlla Árdal
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi