Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Stjórnvöld skýri betur markmið sóttvarnaaðgerða

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Bragi Valgeirsson
Stjórnvöld þurfa að skýra betur markmið sóttvarnaaðgerða og auka fyrirsjáanleika að mati starfshóps á vegum fjármálaráðherra. Síendurteknar breytingar á sóttvörnum séu óheppilegar og til þess fallnar að skapa óvissu.

 

Fyrsta skýrsla starfshóps fjármálaráðherra um efnahagsleg áhrif farsóttar og sóttvarna var birt í dag. Már Guðmundsson fyrrverandi seðlabankastjóri leiðir hópinn en í honum eiga sæti fulltrúar ráðuneytis og Samtaka atvinnulífsins.

Í skýrslunni kemur fram að það sé bæði erfitt og flókið að leggja mat á áhrif einstakra sóttvarnaaðgerða. Þær geti bæði gengið of langt og einnig of skammt. Hér á landi hafi þær verið mildar í alþjóðlegum samanburði og mikilvægast sé að missa ekki tökin á faraldrinum.

Ferðaþjónustan hafi orðið hvað verst úti og tekjur hennar dregist saman um 60 prósent á fyrstu níu mánuðum ársins.

Einkaneysla hafi einnig dregist saman þegar faraldurinn náði hámarki í vor en hafi hins vegar gengið til baka þegar slakað var á aðgerðum í sumar.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir þetta sýna hve miklu máli skiptir að ná tökum á faraldrinum.

„Við fáum þarna gróft mat á því hverju það skipti í sumar að ná að slaka á sóttvörnum þá sjáum við hvað efnahagsumsvifin geta vaxið hratt. Ef við náum góðum árangri. Þannig að þetta er mjög skýr vísbending um það hvað er í húfi í þessum málum öllum. Við vitum það fyrir en þarna er reynt að slá máli á það,“ segir Bjarni.

Skýrsluhöfundar telja að stjórnvöld þurfi hins vegar að útskýra betur markmið sóttvarnaaðgerða. Þannig megi stuðla að aukinni sátt og draga úr óvissu. Síendurteknar breytingar á aðgerðum séu óheppilegar, bæði fyrir einstaklinga og fyrirtæki.

Bjarni tekur undir þetta en segir erfitt að glíma við þær aðstæður sem faraldurinn hafi skapað.

„Það hvernig við þurfum að bregðast við síbreytilegum aðstæðum er krefjandi verkefni og það er skiljanlegt að menn vilji svona eftir því sem faraldurinn tekur á sig nýjar myndir, hann er núna aftur í sókn víða, hvernig við hyggjumst bregðast við og hvaða markmiðum við viljum ná í ljósi breytinga sem eru að verða í ytra umhverfinu. Þetta eru mikilvægir þættir sem maður tekur til sín að megi skerpa,“ segir Bjarni.  

 

 

Höskuldur Kári Schram
Fréttastofa RÚV