Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Navalny ætlar að snúa aftur til Rússlands

15.09.2020 - 19:15
epa07745693 (FILE) - Russian Opposition activist Alexei Navalny attends a rally in support of opposition candidates in the Moscow City Duma elections in downtown of Moscow, Russia, 20 July 2019 (reissued 28 July 2019). Reports citing Alexei Navalny's spokeswoman Kira Yarmysh state 28 July 2019 Navalny has been taken to a hospital from his detention early 28 July while suffering from a serious allergy attack.  EPA-EFE/SERGEI ILNITSKY
Alexei Navalny. Mynd: EPA-EFE - EPA
Rússneski stjórnarandstöðuleiðtoginn Alexei Navalny getur nú andað án öndunarvélar og ætlar að snúa aftur til Rússlands þegar heilsan leyfir. Utanríkismálastjóri Evrópusambandsins segir eitrunina ekkert annað en morðtilraun. 

Navalny hefur legið inni á spítala í Berlín í Þýskalandi síðustu vikur og segja þýskir læknar að eitrað hafi verið fyrir honum með taugaeitrinu novichok. Navalny greindi frá því í færslu í dag að hann væri enn slappur en hefði getað andað sjálfur síðan í gær. Með færslunni birti hann mynd af sér með eiginkonu sinni og börnum. „Hæ, þetta er Navalny,“ segir í færslunni. „Ég hef saknað ykkar. Ég get varla gert neitt en í gær gat ég andað af sjálfsdáðum allan daginn, alveg upp á eigin spýtur.“

Mynd með færslu

 

Talskona Navalnys, Kira Yarmish, greindi frá því í dag að hann ætli að snúa aftur til heimalandsins, aldrei hefði neitt annað komið til greina. 

Stuðningsmenn og samstarfsfólk Navalnys telja að yfirvöld hafi skipulagt ódæðið en því hafa þau staðfastlega neitað. Hann veiktist heiftarlega í flugi frá borginni Tomsk í Síberíu 20. ágúst og var tveimur dögum síðar fluttur á Charite-sjúkrahúsið í Berlín. Þar fékkst staðfest að hann hafði orðið fyrir eitrun. Rússneskir læknar höfðu áður sagt að engin merki væru um slíkt. 

Eitrunin var rædd á Evrópuþinginu í dag. Josep Borell Fontelles, utanríkismálastjóri ESB, var ómyrkur í máli. „Við fordæmum þetta morðtilræði eins harkalega og okkur er unnt. Þetta er orðið sem við þurfum að nota; morðtilræði,“ sagði hann.

Anna Fotyga, Evrópuþingmaður og fyrrverandi utanríkisráðherra Póllands, sagði að það væri kominn tími til að stöðva refsileysi Pútíns. „Það er kominn tími til að grípa til víðtækari refsiaðgerða. Við skulum byrjað á að stöðva Nord Stream 2.“ Þar á Evrópuþingmaðurinn við gaslögnina Nord Stream 2 sem verið er að leggja lokahönd á og gerir Rússum kleift að tvöfalda gasútflutning sinn til Evrópu.

Haft var eftir talsmanni stjórnvalda í Kreml, Dmitry Peskov, í frétt BBC dag að ekki stæði til að þeir funduðu saman, Vladimír Pútín, forseti, og Navalny, þegar sá síðarnefndi hefði náð heilsu. Stjórnvöld sæju ekki þörf fyrir slíkan fund og því færi hann líklega ekki fram.