Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Mótmæla brottvísun Egyptanna við Ráðherrabústaðinn

15.09.2020 - 11:06
Mynd: Grímur Jón Sigurðsson / RÚV
„Það eina sem virðist skorta er viljinn, því verkfærin eru sannarlega til staðar,“ segir Sema Erla Serdar, stofnandi Solaris, hjálparsamtaka fyrir hælisleitendur og flóttafólk á Íslandi. „Reglugerðirnar eru mannanna verk.“

Hópur fólks mótmælti brottvísun egypskrar fjölskyldu frá Íslandi við Ráðherrabústaðinn á meðan ríkisstjórnin fundaði þar í morgun. Mótmælendurnir skoruðu á ríkisstjórnina að grípa inn í og snúa ákvörðun útlendingastofnunar um að vísa fjölskyldunni úr landi.

12.376 skráðu sig á undirskriftalista undir fyrisögninni „Abdalla, Rewida, Hamza og Mustafa eiga heima á Íslandi!“. Sema Erla færði Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra undirskriftalistann í morgun í þríriti; Einn handa Áslaugu, einn handa Ásmundi Einari Daðasyni félags- og barnamálaráðherra og sá þriðji handa Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra.

Mótmælendurnir sem komu í Tjarnargötu báru skilti og fána. „Börnin eiga heima hér,“ stóð á einu skiltinu. Fólkið strengdi einnig á milli sín stóran fána sem á stóð „No human is illegal“ upp á ensku. Íslenska þýðingu af því slagorði kölluðu mótmælendur svo: „Engin manneskja er ólögleg!“

Mynd: Hólmfríður Dagný Friðjónsd / RÚV

Þegar leið á ríkisstjórnarfundinn ákváðu mótmælendurnir að færa sig fyrir aftan húsið við Tjarnargötu þar sem ríkisstjórnin fundar. Þangað snúa gluggarnir á fundarherberginu og vildi fólkið með þessu vekja meiri athygli á sér inni á ríkisstjórnarfundinum.

Lögreglan hafði nokkurn viðbúnað og stóð vörð við húsið svo að fólkið kæmist ekki að gluggunum.

Fréttin var uppfærð klukkan 11:27.