Mestu áföllum og helsta batanum misskipt

Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV - RÚV Anton Brink
Einkaneysla Íslendinga dróst mikið saman í vor þegar kórónuveirufaraldurinn reið yfir. Þótt svo einkaneyslan hafi að sama mæli aukist mikið þegar bylgjan gekk niður voru það önnur fyrirtæki sem nutu góðs af þeirri neysluaukningu en höfðu orðið fyrir barðinu á samdrættinum. Starfshópur fjármálaráðherra um efnahagsleg áhrif faraldursins hefur reynt að meta áhrif faraldursins til þessa og lagt fram ábendingar um framhaldið.

Fyrsta skýrsla starfshópsins var birt í dag. Þar segir að erfitt sé að greina hvaða efnahagslegu áföll megi rekja til ótta fólks við veiruna og hvað til sóttvarnaaðgerðum stjórnvalda. Þó sé ljóst að sóttvarnir hafi bæði jákvæð og neikvæð áhrif þar sem þau minnki efnahagslegan skaða frá því sem yrði ef útbreiðsla faraldursins yrði óheft en á móti komi að hluti efnahagsstarfsemi landsins verði ekki lengur mögulegur.

Starfshópurinn segir að því fyrirsjáanlegri sem sóttvarnaaðgerðir stjórnvalda verða þeim auðveldara eigi fyrirtæki með að gera áætlanir um viðbrögð. Þó er tekið fram að útilokað sé að veita slíkan fyrirjáanleika með mikilli vissu. Starfshópurinn hvetur til þess að skoðað verði hvort hægt sé að grípa til annarra sóttvarnaaðgerða á landamærunum en tvöfaldrar skimunar og sóttkvíar án þess að taka of mikla áhættu fyrir þróun faraldursins. Skýrsluhöfundar segja að ferðaþjónustan sé mikilvæg fyrir viðspyrnu þjóðarbúsins og því ætti að skoða leiðir til að veita henni stuðning með einum eða öðrum hætti til að viðhalda reynslu, þekkingu og viðskiptasamböndum meðan illa árar.

Fyrsta skýrsla starfshópsins

Skýrsluhöfundar segja að gera megi ráð fyrir að landsframleiðslan verði um 240 milljörðum króna minni í ár en spáð var í upphafi árs. Þar er vitnað til greinargerða Seðlabankans um hagþróun. Samkvæmt því var samdráttur á öllum sviðum: einkaneyslu, fjármunamyndun, atvinnuvegafjárfestingu, þjóðarútgjöldum, útflutningi og innflutningi auk þess sem landsframleiðsla dregst verulega saman frekar en að vaxa lítillega.

Í einföldustu mynd má segja að neysla erlendra ferðamanna hafi verið 90 milljörðum minni á öðrum ársfjórðungi og landsframleiðslan 50 til 60 milljörðum minni en ef ekki hefði komið til heimsfaraldurs, segja skýrsluhöfundar.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Skýrsluhöfundar telja að áætla megi að hertar aðgerðir á landamærunum hafi orðið til þess að draga úr tekjum af ferðamönnum um þrettán til 20 milljarða króna til ársloka. Er þá miðað við að stöðuna í sumar eftir að faraldurinn hófst en áður en gripið var til hertra aðgerða. Þó er tekið fram að vísbendingar séu um að dregið hafi úr flugumferð áður en gripið var til tvöfaldrar skimunar samhliða vexti faraldursins hér og í Evrópu.

Tekjur fyrirtækja í þjónustu drógust mjög saman í mars og apríl en áhrifin voru minni á verslun á þeim tíma. Verslun jókst hins vegar verulega í maí, júní og júlí. Að hluta má rekja það til frestaðrar neyslu að sögn skýrsluhöfunda og stuðningi stjórnvalda við ráðstöfunartekjur, svo sem sérstaks barnabótaauka og úttektar á séreignarsparnaði.

Meðal þeirra sem nutu góðs af aukinni neyslu innanlands voru seljendur raftækja, húsgagna og byggingarvara auk smásöluverslunar. Veitingastaðir hafa hins vegar farið á mis við þá útgjaldaaukningu og líða fyrir mun færri ferðamenn og minni viðskipti.

Einnig er reynt að meta skammtímahorfur í skýrslunni, meðal annars um að hingað komi 500 þúsund ferðamenn í ár og að af þeim séu 450 þúsund þegar komin. Seðlabankinn gerir í spá sinni ráð fyrir að ferðamenn verði um milljón á næsta ári og er þá miðað við að ekki verði bakslag í þróun farsóttarinnar næstu misseri. Miðað við það er áætlað að þriggja til fimm prósenta hagvöxtur verði á næsta ári en sjö til átta prósenta samdráttur í ár. Verði ferðamenn hins vegar álíka margir á næsta ári en í ár verður hagvöxtur um það bil einu prósenti minni en annars væri.

Hætt er við að hagvöxtur verði einu prósenti minni en nú er spáð og atvinnuleysi 1,5 prósentum meira ef ferðalög taka ekki við sér fyrr en næsta sumar í stað næsta vors, samkvæmt útreikningum fyrir starfshópinn. Samkvæmt því myndu utanríkisviðskipti aukast um þrjú til fimm prósent á næsta ári en ekki um sautján til nítján prósent.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi