Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Magnað hvernig eineltið situr í mér“

Mynd: RÚV / RÚV

„Magnað hvernig eineltið situr í mér“

15.09.2020 - 14:29

Höfundar

Þegar Aníta Briem var níu ára fékk hún eitt stórkostlegasta tækifæri lífs síns, að eigin sögn, sem var að leika Idu í Emil í Kattholti. Hún upplifði frelsi og öryggi í leikhúsinu sem var kærkominn flótti frá skólanum þar sem henni var svo mikið strítt að hún er enn að glíma við afleiðingarnar. Aníta er nýflutt til Íslands frá Bandaríkjunum og leikur í Ráðherranum, nýrri þáttaröð sem er frumsýnd á RÚV á sunnudag.

Aníta fer með hlutverk Steinunnar, eiginkonu forsætisráðherrans sem Ólafur Darri Ólafsson leikur. Hún segir að það hafi reynst stórkostlegt tækifæri enda sé Steinunn mögnuð kona og ástarsaga hjónanna flókin en falleg. „Þetta er saga af mjög óvenjulegum pólitíkusi sem ætlar sér ekki í pólitík en lendir þar. Þau hjónin eru teymi í þessu og ég á stórt fjölmiðlafyrirtæki svo þetta lendir á gráu svæði,“ segir Aníta. „Þetta eru hjón sem hafa verið saman lengi og eru að ganga í gegnum erfitt tímabil þar sem upp fara að blossa hjá honum andleg veikindi sem ágerast með tímanum. Enginn veit nákvæmlega hvernig á að meðhöndla þau og að því leyti er þetta ótrúlega þrungin fjölskyldusaga.“ Það er valinn maður í hverju hlutverki í þáttunum og nefnir Aníta meðal annars Helga Björnsson sem fer með hlutverk föður Steinunnar, Sigurð Sigurjónsson sem leikur tengdaföður hennar, Þuríði Blævi Jóhannsdóttir og Þorvald Davíð Kristjánsson. Leikarahópurinn var þéttur og Aníta segir að líf hennar hafi breyst við að fá að fara með hlutverk Steinunnar með þessum hópi. Hún var gestur Felix Bergssonar í Fram og til baka á Rás 2 á sunnudag þar sem hún sagði hún frá fimm eftirminnilegustu hlutverkunum sem hún hefur leikið, sigrunum, mótlætinu og hvernig væri að vera komin aftur heim til Íslands úr sólinni í Hollywood.

Elskar suddann en saknar ávaxtatrjánna

Það breyttist nefnilega margt eftir hlutverkið örlagaríka í Ráðherranum og Aníta gat skyndilega ekki lengur hugsað sér, eftir tuttugu ára dvöl erlendis, að búa stundinni lengur annars staðar á Íslandi. Það var því ekkert annað í stöðunni en að pakka saman og snúa aftur á æskuslóðir. „Steinunn er miklu betri manneskja en ég og ég fann svo sterkt hvað ég naut þess að vera hér heima og hvað ég tengdist sterkt,“ segir Aníta sem leið hreint ekki vel með að snúa aftur heim til Bandaríkjanna eftir að tökum var lokið. „Allt í einu fannst mér erfitt að tala við fólk því mér fannst ég tengja á allt annan hátt við samlanda og kollega hér,“ segir Aníta sem nú er flutt aftur heim til Íslands eftir glamúrlíf í Los Angeles. „Ég bjó í Hollywood hæðunum í Highland Park og þar er mikið af ungum fjölskyldum, listafólki, kaffihúsum og börum.“ En hún saknar ekki einu sinni veðurblíðunnar þar sem hún nýtur sín best í nöpru skammdeginu og rammíslenskum sudda. „Ég hef aldrei upplifað beina tengingu á milli góðs veðurs og hamingju. Ég elska kuldann og gaddinn og veturinn er mitt uppáhalds tímabil.“ En ávaxtratrén hefði hún verið til í að geta tekið með sér til Íslands. „Ég er með sítrónutré, fíkjutré, granateplatré, ferskjutré og blóðappelsínutré, grænmeti og jarðarber,“ segir hún um garðinn sinn í Hollywood.

Blessuð sé minning Gísla Rúnars

Eftirminnilegasta hlutverk Anítu á ferlinum er hennar fyrsta hlutverk sem Ída í Kattholti í Þjóðleikhúsinu níu ára gömul. Þar var hún meðal annars hífð upp í fánastöng í frægu atriði. „Að fá það hlutverk er merkilegasta stund lífs míns,“ segir Aníta um símtalið örlagaríka. Hún lék þar á móti Bessa Bjarnasyni,  Margréti Guðmundsdóttur og Gísla Rúnari Jónssyni sem fór með hlutverk vinnumannsins. „Blessuð sé minning hans, elsku vinar míns,“ segir Aníta þegar hún minnist Gísla sem lést í lok júlí.

Hitti geranda sinn nýverið í verslun og fékk hnút í magann

Aníta naut sín alltaf vel í leikhúsinu á þessum árum en á sama tíma kveið hún því að mæta í skólann. Hún hafði nýverið hætt í Hvassaleitisskóla og byrjað í Langholtsskóla. Þar var hún lögð í einelti, hún áttar sig á því núna þótt hún hafi ekki þá þekkt hugtakið. „Mér leið ekkert rosalega vel og það var lítið talað um hvað það er. Það var ekki í umræðunni og maður áttar sig ekki á því,“ segir hún. Og eineltið situr enn í henni, hún fann það þegar hún hitti einn geranda sinn í búð á dögunum og fékk hnút í magann. „Ég gat ekki talað við hana. Ég fann bara þyngslin og kvíðann frá því ég var níu ára að labba heim úr skólanum,“ segir Aníta. Hún blómstraði á ný þegar hún flutti sextán ára til London og fann hvað henni var mikið til lista lagt þrátt fyrir það sem henni hafði verið talin trú um. „Þá varð ég sem óskrifað blað og fólk sá mig á allt annan hátt. Og umhverfið er svo magnað og hvaða skilaboð fólk sendir þér,“ segir Aníta. Hún hafði alltaf verið léleg í íþróttum og upplifði sig ómögulega á því sviði. Þegar hún var komin í nýtt umhverfi áttaði hún sig á því að það voru bara skilaboð sem henni voru send og að þau voru röng. „Ég vann til verðlauna í bardagalist og blómstraði í því sem ég var búin að ákveða í undirmeðvitundinni að ég myndi aldrei snerta.“

Óttaðist lengi að flytja heim en er tilbúin

Það var stórt skref að flytja aftur heim, skref sem hún hafði lengi óttast að taka. „Smá partur af mér var hræddur um að þetta væri minn markaður. Hvað er mér mistekst, hvað gerirðu?“ segir hún. „Ég var svo hrædd við það og egóið var hrætt.“ Þegar hún horfði á heiminn frá augum sex ára dóttur sinnar breyttist afstaðan. „Þá fer egóið í burtu,“ segir hún sem er spennt fyrir komandi verkefnum á Íslandi. „Það er svo mikið af skapandi og eldkláru fólki í þessum iðnaði. Þau hlutverk sem ég hef fengið að taka þátt í hér hafa verið þau mest nærandi og skapandi sem ég hef verið í.“

Felix Bergsson ræddi við Anítu Briem í Fram og til baka á Rás 2. Fyrsti þáttur Ráðherrans er sýndur á RÚV 20. september klukkan 20:40.

Tengdar fréttir

Stjórnmál

„Leyfum við stjórnmálamönnum að vera andlega veikir?“

Sjónvarp

Ráðherrann tilnefndur til PRIX Europa-verðlaunanna

Menningarefni

„Held mér hafi aldrei liðið jafn kynþokkafullri“