Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Lengri og harðari kreppa án ferðaþjónustunnar

Mynd: Þór Ægisson / Þór Ægisson
„Það eru ekki margir,“ segir Jóhannes Þór Skúlason framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar spurður að því hversu mikið af ferðamönnum sé í landinu. Flug eru felld niður, afbókanir hrannast inn; „Enda erum við með ströngustu ferðatakmarkanir í Evrópu," bendir Jóhannes á. Ferðaþjónustan kallar eftir meiri stuðningi frá stjórnvöldum. En hvers vegna á að dæla peningum í iðnað sem hefur engan að þjónusta?

„Við vitum að eina leiðin fyrir samfélag út úr svona, og við sjáum það líka á löndunum í kring um okkur, er bara að dæla peningum úr ríkissjóði. Því miður það er bara eina leiðin og það sem við höfum að rífast um í stjórnmálum dagsins í dag er í hvað á að dæla peningum, ekki hvort á að gera það. " segir Jóhannes. „Staðan í dag er sú að til þess að ná hraðri viðspyrnu úr svona kreppuástandi þurfum við að búa til gjaldeyri, við þurfum að koma útflutningsatvinnugreinunum okkar í gang aftur til að skapa verðmæti fyrir samfélagið. Það er þannig sem við náum aftur sömu landsframleiðslunni." Þannig verði hægt að borga kostnað kreppunnar í framtíðinni.

Jóhannes bendir á Ísland hafi á fjóra pósta að stóla þegar komi að verðmætasköpun; sjávarútveginn, ál- og kísiliðnað, alþjóðleg nýsköpunar- og frumkvöðlafyrirtæki og ferðaþjónustuna. Fyrstu þrír geirarnir standi vissulega frammi fyrir ýmsum vandamálum, en þeir malli áfram og sinni undirstöðunni vel. Ferðaþjónustan sé hins vegar það sem geti skotið Íslandi upp úr kreppunni.

„Það er efnahagsleg staðreynd að við sitjum uppi með ferðaþjónustuna sem einu útflutningsgreinina sem getur verið kvik á fæturna aftur og það er þess vegna hún sem getur komið okkur aftur af stað." Því eigi að halda henni á floti, gera ferðaþjónustunni kleyft að halda lágmarks eignum og starfsfólki meðan staðan er sem verst. „Þá erum við að tryggja okkur sem samfélag hraðari viðspyrnu sem er gott fyrir alla, það lágmarkar kostnaðinn." Jóhannes segir ferðaþjónustuna vera í ágætis talsambandi við stjórnvöld, þó þar á bæ séu ekki allir alltaf sáttir með aðgerðir þeirra.

Rætt var við Jóhannes Þór í Samfélaginu á Rás 1, hlusta má á viðalið í heild í spilaranum hér að ofan. 

thorhildurg's picture
Þórhildur Guðrún Ólafsdóttir
dagskrárritstjórn