Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Kerfið vann ekki með skilvirkum og mannúðlegum hætti

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
„Færa má rök fyrir því að í máli því sem nú er til umfjöllunar hafi kerfið ekki unnið með skilvirkum og mannúðlegum hætti.“ Þetta kemur fram í svari Brynhildar Bolladóttur, upplýsingafulltrúa Rauða krossins, við fyrirspurn fréttastofu vegna ummæla Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra um að það sé ekki við kerfið að sakast að egypsk barnafjölskylda verði send úr landi eftir að hafa dvalið á Íslandi í rúmlega tvö ár.

Áslaug Arna sagði í viðtali á Bylgjunni í morgun að hún hefði látið kanna hvers vegna brottflutningur egypsku fjölskyldunnar, sem fyrirhugað er að vísa úr landi á morgun, hefði tekið eins langan tíma og raun ber vitni: „Og það er hvorki við kerfið né COVID-19 að sakast,“ sagði hún. Að öðru leyti sagðist hún ekki vilja tjá sig um málið. 

Rauði krossinn leggur áherslu á að tekið sé tillit til heildardvalartíma

Endanleg niðurstaða lá fyrir í máli fjölskyldunnar rúmum fimmtán mánuðum eftir að hún sótti um vernd hér á landi. Samkvæmt reglugerð á að veita börnum og barnafjölskyldum dvalarleyfi af mannúðarástæðum ef málsmeðferð hefur varað í sextán mánuði eða lengur. Ef málsmeðferð egypsku fjölskyldunnar hefði varað í tæpan mánuð í viðbót hefði hún því fengið slíkt dvalarleyfi.

Áslaug Arna hefur sagt að ekki komi til greina að breyta reglum til að bjarga einstaka fjölskyldum. Reglurnar um dvalarleyfi eftir sextán mánaða málsmeðferð, sem um ræðir hér að ofan, tóku gildi eftir að mál pakistanskrar fjölskyldu komst í hámæli í febrúar á þessu ári og dómsmálaráðherra gerði breytingu á reglugerð um útlendinga. 

Egypska fjölskyldan hefur dvalið hér á landi í rúm tvö ár og Rauði krossinn hefur ítrekað bent á að þegar tímafrestur málsmeðferðar er skoðaður sé eðlilegast að líta til heildardvalartíma umsækjenda, í stað þess að miða við þann tíma sem mál er til meðferðar hjá Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála.

Brynhildur Bolladóttir, upplýsingafulltrúi Rauða krossins, segir að það sjónarmið eigi sér stoð í nýlegu áliti Umboðsmanns Alþingis. „Málsmeðferð í málum er varða umsóknir um alþjóðlega vernd er í höndum margra stjórnvalda sem mynda heildstætt kerfi. Sú vinna sem fram fer eftir úrskurð kærunefndar er unnin af stjórnvöldum, þ.e. stoðdeild ríkislögreglustjóra í samstarfi við Útlendingastofnun,“ segir hún.

60 prósentum barna var synjað um vernd

Áslaug Arna sagði í morgun að 500 hefðu fengið vernd á Íslandi á síðasta ári og að aldrei hefðu fleiri fengið vernd hér á landi á einu ári. Andrés Ingi Jónsson þingmaður vakti í síðustu viku athygli á svari dómsmálaráðherra við fyrirspurn hans á Alþingi í sumar um fjölda barna sem fengið hafa vernd á Íslandi á síðustu árum. Þar kemur fram að 60 prósentum þeirra barna sem sóttu um vernd á síðustu fimm árum hefði verið synjað um vernd og að fimmta hvert barn sem fékk vernd hefði þurft að sækja rétt sinn til kærunefndar útlendingamála. Í Facebook-færslu Andrésar minnir hann á að á síðasta ári voru afgreiddar 158 umsóknir barna á flótta en aðeins 70 fengu vernd.