Kanónur sækjast eftir lögreglustjórastöðu á Suðurnesjum

15.09.2020 - 17:11
Mynd með færslu
 Mynd: Viðar Hákon Gíslason - RÚV
Kolbrún Benediktsdóttir, varahéraðssaksóknari, Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Vesturlandi og Hulda Elsa Björgvinsdóttir, staðgengill lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, eru meðal fimm umsækjenda um stöðu lögreglustjórans á Suðurnesjum. Sex vilja stöðu lögreglustjórans í Vestmannaeyjum, meðal annars Arndís Bára Ingimarsdóttir sem er settur lögreglustjóri í Eyjum, og Grímur Hergeirsson sem var tímabundið skipaður lögreglustjóri á Suðurnesjum.

Þetta kemur fram á vef dómsmálaráðuneytisins. 

Greint var frá því í fjölmiðlum í lok júlí að dómsmálaráðherra hefði tilkynnt Ólafi Helga Kjartanssyni, þáverandi lögreglustjóra á Suðurnesjum, um að hún ætlaði að flytja hann til Vestmannaeyja.   Gustað hafði um embættið og fjölmiðlar flutt fréttir af ásökunum um einelti og óviðeigandi framkomu.

Bæjarstjórinn í Vestmannaeyjum lagðist gegn þessum flutningum og sagði það alveg skýlausa kröfu bæjaryfirvalda að staðan yrði auglýst.

Ekkert varð síðan af þessu og Ólafur lét af störfum sem lögreglustjóri á Suðurnesjum um miðjan síðasta mánuð. Hann tók við starfi sérfræðings í málefnum landamæra í dómsmálaráðuneytinu.  Lögreglustjórarnir tveir verða skipaðir í embættin þann 1. nóvember.

Þeir sem sóttu um stöðuna á Suðurnesjum eru:
Daniel Johnson
Hulda Elsa Björgvinsdóttir
Kolbrún Benediktsdóttir
Súsanna Björg Fróðadóttir
Úlfar Lúðvíksson

Þeir sem sóttu um stöðuna í Vestmannaeyjum
Arndís Bára Ingimarsdóttir
Daníel Johnson
Grímur Hergeirsson
Helgi Jensson
Kristmundur Stefán Einarsson
Logi Kjartansson

 

 

 

 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi