Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Kærunefnd hafnar frestun á brottvísun Egyptanna

Mynd með færslu
 Mynd: Hjalti Haraldsson - RÚV
Kærunefnd útlendingamála hafnaði í dag frestun á brottvísun sex manna egypskrar fjölskyldu. Enn er því stefnt að því að vísa henni úr landi í fyrramálið. „Staða málsins er sú að kærunefnd útlendingamála hefur hafnað kröfu um frestun réttaráhrifa. Nefndin hefur lýst því yfir að hún hyggst ekki afgreiða tvær beiðnir sem eru á hennar borði um endurupptöku áður en til brottvísunar kemur,“ segir Magnús Norðdahl, lögmaður fjölskyldunnar.

„Það er mitt mat að kerfið og ríkisstjórnin sem er ein heild hafi brugðist börnunum í þessu máli. Það er ákaflega sorglegt að það skuli gerast,“ segir Magnús jafnframt. Fjöldi fólks mótmælti á meðan ríkisstjórnin fundaði og einnig á Austurvelli síðdegis. Fjölskyldan hefur verið hér í rúm tvö ár en verður að óbreyttu send úr landi í fyrramálið.

Litlar líkur á áreiti stjórnvalda

Í úrskurði kærunefndar segir að fjölskyldan byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að þau séu í hættu vegna stjórnmálaskoðana. Fjölskyldan telur að láti fjölskyldufaðirinn, Ibrahim, í ljós skoðanir sínar eigi hann á hættu ómannúðlega meðferð í Egyptalandi og mögulega dauðarefsingu. Kærunefnd útlendingamála telur hins vegar að það sé lítil hætta á því að þeir sem aðeins teljast stuðningsmenn bræðralags múslima en eru ekki virkir eða hátt settir liðsmenn verði fyrir áreiti stjórnvalda. Hann megi þó búast við að stjórnvöld fylgist með þeim. Áreitið flokkist því ekki sem ofsóknir í lagalegum skilningi. Fjölskyldan teljist ekki vera flóttamenn. Börnin muni hafa aðgang að mennta- og heilbrigðiskerfi í Egyptalandi.

Ofbýður endurtekin brottvísun barna

Hámarksmeðferðartími í barnamálum eru 16 mánuðir, endanleg niðurstaða lá fyrir eftir rúma fimmtán og hefur þeim borið að yfirgefa landið síðan þá að því er segir á vef Útlendingastofnunar.

„Mér ofbýður framkoma stjórnvalda við þessa fjölskyldu. Þetta gerist aftur og aftur að það sé verið að vísa fólki úr landi, fólki með börn. Ég sem er komin hátt í áttrætt bara þoli þetta ekki,“ segir Jórunn Sörensen, mótmælandi.

„Mér misbýður að það sé verið að vísa þessari fjölskyldu úr landi í ótryggt ástand í Egyptalandi, sérstaklega út af börnunum,“ segir Sigurður Einarsson, mótmælandi.

„Svartur dagur í sögu þjóðarinnar“

Forsætisráðherra sagði eftir ríkisstjórnarfund í dag að ákvörðunin um brottvísun væri ekki á hendi einstakra stjórnmálamanna heldur kerfisins sem hafi verið byggt upp. Barnamálaráðherra sagði að hann hefði gengið úr skugga um að að hagsmunum barnanna hafi verið gætt.

„Þó að málaflokkurinn heyri undir dómsmálaráðuneytið, er dómsmálaráðherra hluti af þeirri heild sem ríkisstjórnin er. Það er bagalegt að forsætisráðherra og barnamálaráðherra hafi ekki beitt sér í þessu máli,“ segir Magnús jafnframt. „Þetta er svartur dagur í sögu íslensku þjóðarinnar og það er mælikvarði á gildi hvers samfélags hvernig við komum fram við okkar viðkvæmustu hópa og þar eru börn fremst í flokki,“ bætir hann við.

Mynd með færslu
 Mynd: Hjalti Haraldsson - RÚV