Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Ítreka að við erum ekki að taka á móti öllum“

15.09.2020 - 13:24
Mynd: Grímur Jón Sigurðsson / RÚV
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að mál egypsku fjölskyldunnar sem vísa á úr landi á morgun hafi ekki verið sérstaklega tekið fyrir á ríkisstjórnarfundi fyrir hádegi en málefni hælisleitenda verið rædd heildstætt. Hún ítrekaði að ekki væri öllum útlendingum veitt dvalarleyfi á Íslandi sem sækja um það.

Katrín sagði að ákvarðanir um dvalarleyfi væru ekki á hendi einstakra stjórnmálamanna „heldur byggjast á því kerfi sem við höfum byggt upp.“

Hún benti á að íslensk stjórnvöld hefðu undanfarið stytt málsmeðferðartíma og á Íslandi væri hann tiltölulega stuttur í samanburði við önnur norræn ríki þrátt fyrir að umsóknir um dvalarleyfi væru hlutfallslega fleiri hér. Nú hefði umræðan beinst að heildardvalartíma fólks og þá sé eðlilegt að skoða hvað valdi því að svo langur tími líður uns til brottvísunar kemur. 

Hvaða áhrif hafa þessi mótmæli og undirskriftalisti?

„Ég held að þau sýni að fólk lætur sig málið varða og það er mjög gott, og ég held að það sem skiptir máli að stjórnvöld geri er að við tökum þessa umræðu heildstætt og við ræðum með opnum hætti hvað við viljum sjá gerast í kerfinu okkar. Því þetta er auðvitað ekki stofnun sem hefur verið sett á laggirnar að eilífu, lögin eru tiltölulega ný, þau eru frá 2016,“ sagði Katrín.

Mynd: Grímur Jón Sigurðsson / RÚV

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, sagðist hafa átt samtöl við dómsmálaráðherra um gert yrði sérstakt hagsmunamat á því hvað væri börnunum fyrir bestu í þessu máli.

„Dómsmálaráðherra hefur tjáð mér að slíkt hafi farið fram og það er sú krafa sem við sem stjórnvöld setjum að sé gert,“ sagði Ásmundur Einar.

„Við ræddum líka í dag hvernig við getum almennt stytt málsmeðferðartíma í málefnum barna og hugsanlega þurfum við að stíga frekari skref í því.“

Þannig að þessi ákvörðun um brottvísun stendur óhögguð? „Ég er ekki dómsmálaráðherra, ég er ekki forstjóri Útlendingastofnunar,“ sagði Ásmundur og sagðist ekki halda á málinu.

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV