
Íslandi ber að tryggja vernd og réttindi barna á flótta
Þarf að virða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna
Félagið skorar á Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra að láta til sín taka vegna málsins. Það bendir á að Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna, sem var lögfestur hér á landi árið 2013, leggi þær skyldur á aðildarríki að tryggja hverju barni innan lögsögu sinnar þau réttindi sem kveðið er á um í sáttmálanum. Ljóst sé að endurskoða þurfi verklag „svo það endurspegli framkvæmd sem virðir Barnasáttmálann og tryggir að honum sé framfylgt þannig að réttindi barna á flótta séu ávallt tryggð“.
Magnús Davíð Norðdahl, lögmaður fjölskyldunnar, og Salvör Nordal, umboðsmaður barna, hafa að sama skapi bent á Barnasáttmálann í þessu samhengi. Í þriðju grein sáttmálans segir að ríkjum beri að láta það hafa forgang sem er barni fyrir bestu þegar gerðar eru ráðstafanir er varða börn.
„Ísland hefur getu til að taka á móti börnum á flótta“
„Við mat á því hvað barni er fyrir bestu ber Útlendingastofnun að líta til öryggis barns, velferðar og félagslegs þroska auk þess að taka tillit til skoðana barnsins í samræmi við aldur þess og þroska,“ segir í yfirlýsingu Félagsráðgjafafélagsins.
„Ísland hefur getu til að taka á móti börnum á flótta og veita þeim tækifæri til menntunar, aðgengi að heilbrigðiskerfi og annan stuðning. Börnum er ekki bjóðandi að flakka á milli landa. Velferðarríki eins og Íslandi ber að tryggja vernd og réttindi barna á flótta og veita þeim tækifæri til að alast upp í öruggu umhverfi,“ segir enn frekar í yfirlýsingunni.