ÍBV varð af mikilvægum stigum - Vestri upp í 6. sæti

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

ÍBV varð af mikilvægum stigum - Vestri upp í 6. sæti

15.09.2020 - 18:45
Baráttan er hörð í næst efstu deild karla í fótbolta um tvö efstu sætin sem tryggja farseðilinn upp í úrvalsdeild. ÍBV varð af mikilvægum stigum í toppbaráttunni í kvöld þegar liðið gerði markalaust jafntefli á heimavelli við fallbaráttulið Leiknis Fáskrúðsfirði.

 

ÍBV er með 26 stig í 4. sæti deildarinnar eftir 16 leiki, þremur stigum á eftir Leikni Reykjavík sem er í 3. sæti eftir 15 leiki, fjórum stigum á eftir Keflavík sem er í 2. sæti með 30 stig eftir 14 leiki en Fram er á toppnum með 32 stig eftir 15 leiki.

ÍBV-Leiknir F. 0-0

Leiknir Fáskrúðsfirði er í fallsæti, 11. sæti með 12 stig eins og Þróttur Reykjavík sem er sæti ofar og á leik til góða.

Einn annar leikur fór fram í deildinni í dag, Lengjudeildinni. Á Ísafirði vann Vestri 2-1 sigur á botnliði Magna Grenivík sem er með 9 stig í neðsta sæti. Með sigrinum komst Vestri upp fyrir Grindavík í 6. sæti með 23 stig en Grindavík, sem er með 22 stig, á tvo leiki til góða.

Staðan í deildinni