Hvassviðri eða stormur vestantil og á hálendinu

15.09.2020 - 19:09
Mynd með færslu
 Mynd: Veðurstofan
Útlit er fyrir sunnan hvassviðri eða storm við Faxaflóa, Breiðafjörð og á Vestfjörðum á morgun. Stormur verður á hálendinu frá því um hádegisbil á morgun þar til á fimmtudagsmorgun.

Veðurstofan hefur gefið út gular viðvaranir vegna óveðursins. Við Faxaflóa er útlit fyrir að vindur verði á bilinu þrettán til tuttugu metrar á sekúndu. Hann getur farið í 25 til 35 metra á sekúndu í hvössum vindstrengjum við fjöll, sérstaklega undir Hafnarfjalli. Útlit er fyrir enn hvassara veður við Breiðafjörð og á Vestfjörðum, fimmtán til 23 metra á sekúndu, 25 til 35 metra á sekúndu í vindhviðum við fjöll. Sérstaklega er varað við hvössum vindstrengjum á Snæfellsnesi, við Ísafjarðardjúp og á heiðum á Vestfjörðum. Varasamt er að vera á ferð á ökutækjum sem taka á sig mikinn vind. 

Óveðursins verður fyrst vart á Breiðafirði um ellefu leytið í fyrramálið, klukkustund síðar á Vestfjörðum og síðdegis við Faxaflóa.

Útlit er fyrir sunnanstorm á miðhálendinu, átján til 25 metra á sekúndu og allt að 40 metrar á sekúndu í hviðum. Veðrið verður hvað verst norður af jöklunum. Aðstæður eru varasamar fyrir ferðamenn og útivistarfólk.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi