Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Hrímbóndinn Hrafnkell í samstarfi við náttúruöflin

Mynd: RUVmynd / RUVmynd

Hrímbóndinn Hrafnkell í samstarfi við náttúruöflin

15.09.2020 - 10:40

Höfundar

Eftir fjölmargar ferðir á tind Skálafells sýnir myndlistarmaðurinn Hrafnkell Sigurðsson afrakstur sex ára vinnu með sýningunni Fæðing guðanna – Freeze Frame.

Sýningin, sem er í Ásmundarsal, er unnin í samstarfi við náttúruöflin. Vetur konungur hefur hlaðið ís utan á grindur sem Hrafnkell kom upp á fjallinu svo úr urðu ísskúlptúrar. Af þeim tók Hrafnkell síðan myndbönd sem hann nýtir í verkin á sýningunni. Rætt var við Hrafnkel í Víðsjá á Rás 1.

„Eins og svo oft var ég ekki með skýra hugmynd um hvernig mig langaði að framkvæma í þessu verkefni, heldur skynjaði ég frekar einhverja möguleika sem ég þarf að kanna betur,“ segir Hrafnkell um sýninguna þar sem myndböndin sýna löturhæga hreyfingu íssins. Listamaðurinn sneri skúlptúrunum löturhægt og tók af þeim myndbönd sem hann hægði síðan enn frekar á.

Eins og að rétta út hendurnar

Hrafnkell gerði nokkrar tilraunir með mismunandi grindur uppi á Skálafelli. Hann segist tengja grindurnar í fjallinu í raun við upplifun af eigin líkama. „Mér finnst eins og ég hafi verið að teygja mig þarna upp sjálfur, grindurnar séu framhald af líkamanum. Dálítið eins og maður sé að rétta út hendurnar og líkaminn taki á móti ísnum á móti hríminu,“ segir Hrafnkell en hann var á tímabili farinn að líta á sig sem einhvers konar hrímbónda. 

„Ég legg til þessa grind og náttúran kemur á móti. Þetta er bara eins og skúlptúrlistamaðurinn sem býr til járngrind og hleður hana síðan með leir, þá er það náttúran í þessu tilviki sem setur ísinn á. Náttúran er stórfenglegur myndistarmaður, sá allra besti, skapari alls,“ segir Hrafnkell.

Á síðustu 30 árum hefur jörðin misst um 28 trilljón tonn af ís. 28 milljón milljónir tonna. Að vinna með ís getur ekki talist hlutlaus athöfn í samtímanum, að laða til sín ísinn, að vinna með honum, að finna fegurð hans, að rækta ísinn eins og blóm eða tré. Fæðing Guðanna / "Freeze frame", hvað á listamaðurinn við? Kannski verður samhengið ljósara eftir hundrað ár, þegar sjávarmál hefur risið og ísinn er orðinn sjaldgæfari í veröldinni.

- Andri Snær Magnason í texta um sýningu Hrafnkels.

Nánari upplýsingar um sýninguna má finna hér.