Hefðu jafnvel getað bjargað grindhvölunum

15.09.2020 - 12:39
Mynd með færslu
 Mynd: Elsa María Guðlaugs Drífudót - RÚV
Grindhvalirnir tíu sem strönduðu á Snæfellsnesi um helgina sáust hættulega nálægt landi á fimmtudaginn. Yfirvöldum var hins vegar ekki greint frá þessu fyrr en þremur dögum seinna.

Hvalirnir sáust fyrst nærri landi í Álftafirði á norðanverðu Snæfellsnesi á fimmtudag en hvalaskoðunarfyrirtækið Láki Tours í Grundarfirði sagði frá því á Facebook. Skessuhorn greindi einnig frá því að hvalirnir hefðu sést hætttulega nálægt landi snemma á föstudag.  

Starfsfólk Náttúrustofu Vesturlands sagðist hins vegar í samtali við fréttastofu að það hefði enga vitneskju haft um veru hvalanna í Álftafirði fyrr en lögregla hringdi í þau á sunnudag. Þá höfðu hvalirnir þegar strandað og átta drepist. Ef þau hefðu heyrt af þeim fyrr hefði jafnvel verið hægt að bjarga þeim. 

Lögreglan á Vesturlandi staðfestir jafnframt í samtali við fréttastofu að tilkynning hefði ekki borist henni fyrr en um eitt á sunnudag.

Færsla fyrirtækisins Láki tours á Facebook

Þóra Jóhanna Jónasdóttir, dýralæknir dýravelferðar hjá Matvælastofnun, segir að tilkynna beri hvalreka eða hvali nálægt landi til lögreglu.  

“Það er mikilvægt að veita lögreglu sem mestar upplýsingar svo hægt sé að bregðast rétt og hratt við. Staðsetningu og fjöldi dýra. Ef hægt er að sjá ástand dýra er gott að fá það.” 

Sjá leiðbeiningar á vef Matvælastofnunar um slösuð eða hjálparlaus dýr.

Hún segir brýnt að tilkynna slík tilvik sem allra fyrst.  

“Tíminn er okkar helsti keppinautur hvað varðar að geta komið dýrunum til bjargar. Ef við náum að fá upplýsingar um hvali sem ekki eru búnir að stranda þá er hægt að bregðast hratt við og reyna að stugga þeim út. Ef þeir eru strandaðir verður verkefnið strax miklu erfiðara og meiri hætta á að dýrin drepist.”

Fréttin hefur verið uppfærð.

elsamd's picture
Elsa María Guðlaugs Drífudóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi