Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Glódís Perla: „Ótrúlega spennt fyrir þessu verkefni“

Mynd: Mummi Lú / RÚV

Glódís Perla: „Ótrúlega spennt fyrir þessu verkefni“

15.09.2020 - 15:04
Glódís Perla Viggósdóttir, landsliðskona í fótbolta, segist spennt fyrir því að halda áfram undankeppni EM eftir tæplega árs bið. Hún segir gott að fá leik gegn Lettlandi áður en kemur að stórleiknum við Svíþjóð eftir helgi.

Ísland mætir Lettlandi núna á fimmtudag og Svíþjóð svo á þriðjudaginn kemur. Báðir leikir eru á Laugardalsvelli klukkan 18:45 og verða leiknir fyrir tómum velli. 

Tæpt ár er síðan íslenska liðið lék síðast í undankeppninni en síðasti leikur var 6-0 sigur á Lettlandi ytra þann 8. október í fyrra. Það var þriðji sigurleikur íslenska liðsins í jafnmörgum leikjum eftir 4-1 sigur á Ungverjalandi og 1-0 sigur á Slóvakíu.

„Ég er bara ótrúlega spennt fyrir þessu verkefni. Við erum náttúrulega ekki búnar að hittast með landsliðinu núna í sex, sjö mánuði sem er óvenjulegt. Ég held við séum allar mjög spenntar að halda áfram með undankeppnina og koma okkur í góða stöðu fyrir framhaldið,“ segir Glódís Perla í viðtali við RÚV í dag.

Fegin að Lettaleikurinn sé á undan

Íslenska liðið hefur aldrei tapað gegn Lettlandi í landsleik kvenna og ef marka má úrslitin fyrir ári síðan er talsverður getumunur á liðunum. Glódís Perla segir íslenska liðið samt taka leikinn alvarlega og það sé gott að fá hann áður en kemur að leiknum við Svíþjóð eftir helgi.

„Fyrir okkur eru allir leiki mikilvægir og öll stig skipta jafnmiklu máli, alveg sama á móti hverjum þau eru. Við erum því með fullan fókus á þessum leik. En ég held við séum samt allar mjög glaðar að þetta sé fyrri leikurinn því við erum ekki búnar að hittast lengi og þurfum að finna taktinn og koma okkur aftur inn í það sem við höfum verið að gera með landsliðinu undanfarin ár. Við verðum meira með boltann og þurfum að skapa færi. Þær liggja þétt tilbaka og munu reyna að verja markið sitt eins og gull.“

„Svíar eru með frábært lið“

Fyrirfram hefur verið búist við baráttu Íslands og Svíþjóðar um sigur í riðlinum. Sigurlið riðilsins fer beint á EM auk þeirra þriggja liða sem eru með bestan árangur í öðru sæti. Hin sex liðin í öðru sæti riðlanna fara í umspil um sæti á EM. Það er því til mikils að keppa gegn Svíþjóð.

„Svíar eru með frábært lið og leikmenn í mörgum af bestu liðum í heimi. Þær eru með vel samstillt lið og hafa alltaf náð að standa sig vel á stórmótum og eru með hörkulið. Þetta verður hörkuleikur og við verðum að vera 100% klárar þegar að honum kemur.“

Glódís Perla hefur spilað í Svíþjóð síðastliðin fimm ár og þekkir vel til sænsks fótbolta. Hún segir sænska liðið sömuleiðis búast við erfiðum leik.

„Þær eru ekkert rosalega spenntar að koma hingað og spila á móti okkur. Það verður kalt, það verður vindur, það verður rigning og við verðum ógeðslega harðar fyrir. Það er það sem þær tala um og sjá fyrir sér og það er akkúrat þannig sem það verður. Vona ég allavega. Nánast að það verði kalt og rigning og alvöru slagur og við ætlum að láta þær finna fyrir því, finna fyrir því sem þær eru stressaðar fyrir.“ 

Engir áhorfendur verða leyfðir á leikjunum nú vegna sóttvarna.

„Við elskum að spila fyrir Ísland og það er ótrúlega gaman þegar fólk er í stúkunni að styðja mann áfram. En svona er þetta bara núna og við virðum það og svo vonar maður bara að það verði ekki búið að breyta reglunum þegar við spilum alla útileikina.“

Enda riðilinn á útivallasyrpu

Leikirnir núna í þessum glugga eru síðustu heimaleikir íslenska liðsins í undankeppninni. Síðustu þrír leikirnir verða allir á útivelli en það er óvenjulegt fyrir íslenska liðið. Ef riðillinn hefði spilast eins og upphaflega var stillt upp hefði Ísland klárað útileikina í vor og sumar og endað á tveimur heimaleikjum.

„Soldið öfugsnúið við það sem við erum vanar; við erum vanar að klára útileikina og eiga svo heimaleikina eftir. Maður getur ekkert í þessu gert, þetta er bara eins og það er. Við eigum að geta unnið þessa leiki, finnst mér, ef við gerum það sem við gerum vel. Þá á ekki að skipta neinu máli hvort við erum úti eða heima,“ segir Glódís Perla Viggósdóttir.