Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Gengissveiflur krónunnar segja til sín víða

15.09.2020 - 07:45
Mynd með færslu
 Mynd: Shutterstock
Íslenska krónan hefur veikst um 17 prósent gagnvart evru það sem af er ári. Virði einnar evru jafngilti 137 krónum í upphafi árs en jafngildir nú um það bil 160 krónum. Daníel Svavarsson, forstöðumaður hagfræðideildar Landsbankans, segir í samtali við fréttastofu að gengið hafi að sumu leyti sveiflast með faraldrinum. Krónan hefur þó styrkst hratt á allra síðustu dögum, enda tilkynnti Seðlabankinn á fimmtudag að hann myndi hefja reglulega sölu gjaldeyris á innlendum gjaldeyrismarkaði.

Augljós áhrif COVID-19

„Veikingin byrjaði af alvöru í mars. Það voru augljós COVID-áhrif og gerðist þegar það varð högg á ferðaþjónustuna. Svo kom styrkingartímabil upp úr maí og fram í júní þegar það fór að ganga betur og leit út fyrir að ferðaþjónustan næði góðum mánuðum. Krónan náði sterkasta punkti gagnvart evru í byrjun júní og hefur veikst smám saman síðan,“ segir Daníel. Það hafi einnig haft talsverð áhrif að erlendir fjárfestar hafi selt sig út úr fjárfestingum í miklum mæli.  

 

Ekki augljósar hagfræðilegar skýringar á veikingunni 

„Ef maður horfir á gengisþróunina út frá hagfræði þá er ekki endilega að sjá hagfræðilegar skýringar á því að krónan veikist. Til dæmis er enn afgangur að viðskiptajöfnuði, þrátt fyrir efnahagsástandið. Því er enn að koma meiri gjaldeyrir inn í landið en fer út úr því,“ segir hann.

Þá bendir hann á að staða þjóðarbúsins sé góð: „Svo höfum við mun meira af erlendum eignum en skuldum, við erum jákvæð um 838 milljarða.“ Það hafi þó einnig áhrif á gengi að erlendir fjárfestar hafi farið út af markaðnum, en fjármagnsflutningar komi ekki inn í viðskiptajöfnuðinn. Hann segir að sveiflurnar skýrist í raun af sálfræði markaðarins og væntingum.

Verslanir skila veikri krónu hratt út í verðlagið 

Verðbólga hefur aukist á síðustu mánuðum og Daníel segir það beina afleiðingu af veikingu krónunnar. Með veikari krónu versna kjör þeirra sem flytja inn vörur til landsins og Daníel segir að áhrifanna gæti í verðlaginu. „Verslanir skila áhrifunum af veikari krónu hratt út í verðlagið.“ Þannig bitni veikari króna á neytendum innanlands.  

Hann útskýrir að gengisáhrifin hafi ekki komið jafnskýrt fram í verðlaginu þegar krónan veiktist um það leyti sem WOW-air fór í þrot í fyrra. „Við fengum högg á gengið í kringum WOW-ævintýrið. Það hafði ekki teljandi áhrif á verðbólguna. Þá var eins og samkeppni héldi aftur af hækkun verðlags. Núna er sennilega ekki eins kröftug samkeppni og verslanir hafa nú þegar þurft að taka á sig kostnað í tengslum við kjarasamninga. Svo eru þær búnar að hagræða eins og þær geta. Þá var líka olíuverð að lækka í heiminum en nú er það hins vegar komið á svipaðar slóðir og áður,“ segir hann.  

Samkeppni við útlönd hjálpar gjarnan til við að halda aftur af verðhækkunum en hún hefur minni áhrif nú en venjulega vegna þess að viðskipti við útlönd hafa dregist saman. Daníel bendir á að þegar ferðaþjónustan var í blóma hafi verið mun fleiri kaupendur og seljendur á gjaldeyrismarkaði en nú. „Markaðurinn er miklu þynnri núna, það eru hlutfallslega miklu meiri viðskipti í gegnum færri aðila, þannig að markaðurinn er óskilvirkari,“ segir hann. 

Krónan styrkist þegar bóluefni fer í dreifingu 

„Ég held ég geti sagt með fullvissu að krónan styrkist þegar bóluefni fer í dreifingu. Það hefur jákvæð áhrif hér innanlands og svo hefur það líka jákvæð áhrif fyrir okkur að það gangi betur í okkar helstu viðskiptalöndum, þá ferðast fólk til dæmis frekar hingað,“ segir Daníel.  

Aðspurður segir hann nokkuð ljóst að krónan hefði veikst meira ef Seðlabankinn hefði ekki gripið inn í markaðinn. Aðgerðir Seðlabankans hafi ekki miðað að því að snúa við gengisþróuninni, heldur frekar að jafna út stórar sveiflur.

Seðlabankinn tilkynnti um reglulega sölu gjaldeyris

Eins á sjá má á línuritinu hér fyrir ofan hefur krónan styrkst hratt á síðustu dögum. Seðlabankinn tilkynnti síðastliðinn fimmtudag að hann myndi hefja reglulega sölu gjaldeyris á innlendum gjaldeyrismarkaði. 

Í tilkynningu frá Seðlabankanum kemur fram að innlendur gjaldeyrismarkaður hafi ekki farið varhluta af áhrifum farsóttarinnar. „Mjög hefur dregið úr veltu og verðmyndun hefur verið óskilvirk. Að mati bankans er um tímabundna erfiðleika að ræða og má gera ráð fyrir að markaðurinn færist í eðlilegra horf á ný þegar áhrif farsóttarinnar dvína,“ segir í tilkynningunni. Bankinn sé reiðubúinn að selja allt að 240 milljónum evra, sem jafngildi 40 milljörðum íslenskra króna, í reglulegum viðskiptum við viðskiptavaka á gjaldeyrismarkaði til loka þessa árs. 

Leigan í Bretlandi hækkaði um tugi þúsunda á árinu 

Árni Freyr Gunnarsson er doktorsnemi við Oxford-háskóla í Bretlandi. Hann flutti ásamt kærustu sinni, Nínu Hjördísi Þorkelsdóttur sem er í meistaranámi í sama háskóla, til Bretlands haustið 2018. Í byrjun september, áður en krónan tók að styrkjast aftur, hafði gengi krónunnar gagnvart pundi lækkað um 30 prósent síðan þau fluttu út. 

Mynd með færslu
 Mynd: Árni Freyr Gunnarsson

„Síðan faraldurinn skall á hefur gengið lækkað hratt, og frá því í janúar hefur leigan okkar hækkað um tugi þúsunda. Það er frekar blóðugt,“ segir Árni Freyr í samtali við fréttastofu.

 

Hann þakkar þó fyrir að vera með námsstyrk og dagpening í pundum. „En fyrir alla sem eru að reiða sig á námslán setur þetta allt í rugl,“ segir hann.  

Námslánin duga skammt 

Árni segir að Nína hafi lent verr í því en hann: „Hún reiðir sig á íslensk námslán að miklu leyti. Sú framfærsla dugir svo miklu minna nú en áður,“ segir hann. Svo séu skólagjöldin líka miklu hærri en hún hafi gert ráð fyrir. „Pundið hefur hækkað um 20-30 íslenskar krónur síðan hún sótti um námið. Nú þegar hún þarf að borga skólagjöldin eru þau mörg hunduð þúsundum hærri í íslenskum krónum en hún bjóst við,“ segir hann. 

Aðspurður hvort þau finni greinilega fyrir gengisbreytingunni í daglegu lífi segist Árni meðvitaður um að allt sé dýrara en áður. „Allar þumalputtareglurnar sem ég hef verið með til að reikna verðin virka ekki lengur. Það er allt miklu dýrara og maður finnur fyrir því í daglegu lífi,“ segir hann. 

Útflutningsverðmæti aukast 

Lægra gengi kemur sér vel fyrir þá sem flytja út vörur eða þjónustu og áhrifanna gætir meðal annars í útflutningi sjávarafurða. Í ágúst var útflutningur á sjávarafurðum 19% meiri en í ágúst í fyrra í krónum talið.

Mynd með færslu
 Mynd: Jóhanns Jónsson - RUV.is

Gengi krónunnar var rúmlega 13% lægra í ágúst í ár en í fyrra, og verðmætaaukningin er því talsvert minni í erlendri mynt, eða tæp 3%. Ásta Björk Sigurðardóttir, hagfræðingur Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, segir að að magni til hafi mun minna verið flutt út á tímabilinu en á sama tíma í fyrra, auk þess sem afurðaverð hafi tekið að lækka í kjölfar faraldursins.  

Ásta Björk segir þó að áhrif gengisbreytingar á sjávarútveg séu ekki jafn einföld og þau kunni að virðast. „Lækkun á gengi krónunnar styður vissulega við afkomu sjávarútvegsfyrirtækja, líkt og annarra útflutningsgreina, enda er um 98% af sjávarafurðum flutt út,“ segir hún.

Hún bendir á að veikara gengi hafi þó einnig áhrif á ýmsa þætti í rekstri sjávarútvegsfyrirtækja, enda hækki það verð á innfluttum aðföngum. „Má hér nefna olíu, en olíukostnaður er annar stærsti gjaldaliður útgerða á eftir launakostnaði. Eins hækkar þetta verð á varahlutum, umbúðum og flutningar verða dýrara. Veikara gengi krónunnar hækkar einnig skuldir þeirra fyrirtækja í krónum talið sem eru með lán í erlendri mynt. Launakerfi sjómanna byggist jafnframt á hlutaskiptakerfi, þannig að laun þeirra sveiflast með afurðaverði og gengi krónunnar. Það er ákveðin gengisvörn fólgin í því. Annað gildir um laun í landi, eins og í fiskvinnslu, en samkeppnishæfni sjávarútvegs á því sviði batnar við lækkun á gengi krónunnar,“ segir Ásta Björk.