Erfitt að krefja ASÍ um samstöðu eftir „grófa aðför“

15.09.2020 - 07:13
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Drífa Snædal, forseti Alþýðusambands Íslands, segir Icelandair þurfa að gangast við mistökum sínum og biðja launafólk allt afsökunar á framkomu sinni í stað þess „að reyna að skapa nýja ásýnd félagsins í miðju hlutafjárútboði til að tæla til sín eftirlaunasjóði vinnandi fólks“. Þetta kemur fram í aðsendri grein hennar í Morgunblaðinu í morgun.

Í greininni vísar Drífa í „herferð“ flugfélagsins í aðdraganda hlutafjárútboðs. „Ný andlit kynna fyrirtækið, ytri þættir sem valda rekstrarvanda Icelandair og annarra flugfélaga eru tíundaðir og dregin fram löng saga þessa flugfélags.“ Hún tekur fram að samfélagið eigi vissulega mikið undir traustum flugsamgöngum og að það hafi endurspeglast í „ríkri fyrirgreiðslu sem Icelandair hefur notið í formi hlutabóta, greiðslu launa á uppsagnarfresti og nú síðast með heimild til ríkisábyrgðar á lánum“. 

Gagnrýnir aðsenda grein forsvarsmanna Icelandair

Drífa furðar sig á því að í aðsendri grein í Morgunblaðinu í gær eftir Boga Nils Bogason, forstjóra félagsins, Evu Sóleyju Guðbjörnsdóttur, framkvæmdastjóra fjármála hjá Icelandair, og Elísabetu Helgadóttur, framkvæmdastjóra mannauðs, hafi verið látið að því liggja að hlutafjárútboðið sneri einna helst að því að verja hag launafólks og að þar hafi verið tekið sérstaklega fram hversu margir félagsmenn innan ASÍ starfa hjá félaginu. Í umræddri grein forsvarsmanna félagsins var fjöldi starfsmanna innan ASÍ talinn upp í samhengi við umfjöllun um að tugir þúsunda fjölskyldumeðlima starfsmanna Icelandair Group hefðu beina hagsmuni af því að félagið yxi og dafnaði, eins og það er orðað. 

Segir erfitt að krefja ASÍ um samstöðu eftir „grófa aðför“

Drífa segir óljóst hvaða tilgangi upptalningin þjónar, „en væntanlega að krefja ASÍ um samstöðu með stjórnendum Icelandair“. Þá segir hún erfitt að krefja samtök launafólks um slíka samstöðu „örskömmu eftir að Icelandair stóð fyrir einni grófustu aðför að réttindum vinnandi fólks hér á landi á síðari tímum“. Vísar hún þá til ákvörðunar Icelandair um að segja upp öllum flugfreyjum og flugþjónum í miðri kjaradeilu. Félagið sagðist í kjölfarið myndu ganga til samninga við annan samningsaðila á íslenskum vinnumarkaði. 

Segir félagið ekki endurvinna traust fyrr en það virðir starfsfólk

„Skömm þeirra sem sitja við stjórn slíks félags er mikil og þá er til lítils að hreykja sér af því að vera stór vinnustaður, eða með öðrum orðum reiða sig á vinnuafl fjölda fólks og að standa í skilum á greiðslum í stéttarfélög og lífeyrissjóði, svo sem lögbundið er,“ skrifar hún. Félagið muni ekki endurvinna það traust sem það naut áður fyrr en það lýsir því yfir „að héðan í frá virði það starfsfólk sitt, samningsrétt þess og aðild að stéttarfélögum“. 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi