Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Búið að skipa þrjá af fjórum umdeildum dómurum aftur

Frá vinstri: Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, Ingveldur Einarsdóttir, Kristbjörg Stephensen, Ragnheiður Bragadóttir, Ragnheiður Harðardóttir, Arnfríður Einarsdóttir, Jóhannes Sigurðsson, Oddný Mjöll Arnardóttir, Jón Finnbjörnsson, Aðalsteinn E. Jónasson, Davíð
Dómarar við Landsrétt. Mynd: Dómsmálaráðuneytið
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra skipaði þau Ragnheiði Bragadóttur og Jón Höskuldsson í dag í stöðu dómara við Landsrétt. Með skipun Ragnheiðar eru þrír af fjórum umdeildum dómurum sem Sigríður Á. Andersen tók fram yfir aðra umsækjendur búnir að fá skipun í annað sinn. Ákvörðun Sigríðar var umdeild þar sem fjórir umsækjendur voru hæfari að mati dómnefndar. Dómararnir fjórir hættu dómstörfum eftir dóm Mannréttindadómstóls Evrópu um að skipun þeirra hefði ekki verið að lögum.

Ásmundur Helgason var fyrstur dómaranna fjögurra sem ekki gátu dæmt eftir dóm Mannréttindadómstólsins til að vera skipaður aftur í stöðu dómara við Landsrétt. Það gerðist í lok mars. Þar með losnaði upphaflega staða Ásmundar við Landsrétt og var auglýst til umsóknar. Hana hreppti Arnfríður Einarsdóttir í júní. Hún var önnur úr hópi dómaranna umdeildu til að vera skipuð aftur í stöðu dómara við Landsrétt.

Með skipun Arnfríðar í annað sinn í júní losnaði upprunalega dómarastaðan hennar við Landsrétt. Sú staða var önnur þeirra sem dómsmálaráðherra skipaði í í dag. Þá komst þriðji dómarinn sem Sigríður Andersen tók fram yfir aðra umsækjendur sem dómnefnd mat hæfari aftur í dómstólinn. Það er Ragnheiður Bragadóttir sem hlaut aðra stöðuna. Hina hlaut Jón Höskuldsson, dómstjóri við Héraðsdóm Reykjaness. Nú losnar staðan sem Ragnheiður var skipuð í upphaflega og verður auglýst til umsóknar. Jafnframt verður auglýst eftir héraðsdómara.

Jón Finnbjörnsson er sá eini af dómurunum fjórum sem ekki hefur sótt um aðra stöðu í Landsrétti. Hann var fyrstur dómaranna til að óska eftir leyfi frá störfum eftir dóm Mannréttindadómstóls Evrópu. Eftir þann dóm gátu aðeins ellefu af fimmtán dómurum dæmt í málum vegna óvissu um stöðu fjórmenninganna. Með því að óska eftir leyfi var hægt að fá aðra dómara inn tímabundið í þeirra stað.