Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Bið eftir bíómyndum vegna kórónuveirufaraldursins

Mynd: RÚV/Grafík / RÚV/Grafík

Bið eftir bíómyndum vegna kórónuveirufaraldursins

15.09.2020 - 19:49

Höfundar

Framboð á kvikmyndum er umtalsvert minna í kvikmyndahúsum nú en á sama tíma í fyrra. Þónokkrar stórmyndir eru tilbúnar til sýninga en bíða frumsýningar í Bandaríkjunum.

Líkt og aðrar menningarstofnanir sem bjóða upp á afþreyingu hafa kvikmyndahúsin ekki farið varhluta af áhrifum kórónuveirufaraldursins. 

„Við höfum fengið uppsagnarstyrk gegnum kerfið og það hefur hjálpað okkur bara að halda lífi því allur sá rekstur sem við erum í hefur gjörsamlega lokast,“ segir Konstantín Mikaelson, framkvæmdastjóri afþreyingarsviðs Senu.

Kvikmyndahús voru að einhverju leyti opnuð aftur í maí en fjöldatakmarkanir og fjarlægðamörk setja þó enn skorður. Og svo er framboð á kvikmyndum ekki það sama nú og það var á sama tíma í fyrra. 

„Það er töluvert breytt landslag. Við erum að sjá töluvert færri myndir koma og svo að myndir eru að færast yfir á næsta ár.“ 

Meðal þeirra sem lætur bíða eftir sér er sjálfur njósnari hennar hátignar, James Bond. 

Biðin eftir frumsýningum í Bandaríkjunum

Kórónuveirufaraldurinn hefur hægt á framleiðslu margra kvikmynda. Til dæmis var upptökum á mynd byggðri á ævi Elvis Presley frestað í mars þegar einn aðalleikara myndarinnar, Tom Hanks, smitaðist af kórónuveirunni. En það er ekki bara vegna þess að framleiðsla margra kvikmynda hefur frestast vegna faraldursins, margar myndir sitja einfaldlega tilbúnar uppi í hillu og bíða þess að komast í kvikmyndahús í Bandaríkjunum. 

„Bandaríkjamarkaður er enn mjög takmarkaður þar sem stóru fylkin eins og New York og Kalifornía eru enn með mjög takmarkaða aðsókn,“ segir Konstantín. Aðspurður um hvort kvikmyndahúsaeigendur líti ekki víðar en til Bandaríkjanna í leit að kvikmyndum segir hann:

„Við lítum út um allt. Við vorum með mynd frá Suður-Kóreu nýlega sem var mjög stór í Suður-Kóreu og gekk svona ágætlega hér. En því miður, þessar stóru myndir sem draga fólk í bíó eru annað hvort íslenskar eða bandarískar í langflestum tilfellum.“

Kvikmyndahátíðir og frumsýningar hafa í mörgum tilfellum farið fram á netinu á tímum COVID. Þrátt fyrir slíkar tilraunir telur Konstantín að fólk vilji áfram komast í bíó. 

„Framtíðin er björt í bíóbransanum.“

Tengdar fréttir

Kvikmyndir

Bið eftir bíómyndum vegna kórónuveirufaraldursins

Kvikmyndir

„Íslenskt“ landslag tekið upp í Skotlandi

Kvikmyndir

Hefði sennilega ekki gert víkingamynd með neinum öðrum

Tónlist

Kvikmynd um geðhvörf með fílum og söngvum