Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Beiðnir egypsku fjölskyldunnar á borði kærunefndar

Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Visage - RÚV
Þrjár beiðnir af hálfu egypsku fjölskyldunnar sem á að vísa úr landi á morgun bíða meðferðar hjá kærunefnd Útlendingamála, ein frestunarbeiðni og tvær endurupptökubeiðnir.

Magnús Davíð Norðdahl, lögmaður fjölskyldunnar, staðfestir þetta við fréttastofu. 

Krafan um frestun réttaráhrifa er á grundvelli þess ástands sem ríkir í Egyptalandi með tilliti til heimsfaraldurs kórónuveiru. 

Endurupptökubeiðnirnar eru annars vegar, meðal annars, á grundvelli skilgreiningar lengdar málsmeðferðar fjölskyldunnar og hins vegar á grundvelli nýrra upplýsinga um heilsufar foreldranna.

„Það er nú stundum þannig að kærunefnd útlendingamála svarar ekki svona beiðnum áður en fólk er flutt úr landi,“ segir Magnús en hann gerir ráð fyrir að fá svar fyrir lokun stofnunarinnar í dag.

Hjá kærunefnd útlendingamála voru engar upplýsingar veittar um það hvort skorið verði úr um beiðnir fjölskyldunnar áður en brottvísun er fyrirhuguð. Unnið sé eins hratt og unnt er en samkvæmt lögum fresti slíkar beiðnir einar og sér ekki réttaráhrifum.

Þann 22. maí felldi kærunefnd útlendingamála brottvísunarúrskurð frá því í nóvember í fyrra, sem skipaði fyrir um að fjölskyldan skyldi fara úr landi og sæta endurkomubanni í tvö ár, úr gildi. Niðurstaða nefndarinnar frá því í nóvember um að fjölskyldan hefði ekki dvalarleyfi hafði þó enn fullgild réttaráhrif og fjölskyldunni því enn gert að yfirgefa landið.

Fjölskyldan var skimuð fyrir kórónuveirunni síðdegis í gær. Það var liður í undirbúningi stoðdeildar lögreglu vegna brottvísunar fjölskyldunnar til Egyptalands.