Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Andláti 24 ára konu vísað til landlæknis

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ættingjar konu sem lést 24 ára að aldri úr krabbameini, eftir að hafa farið í krabbameinsskimun sem gaf tilefni til nánari skoðunar sem ekki var gerð, hafa vísað máli hennar til landlæknis. Konan lést fyrir þremur árum en hún hafði farið í skimun fyrir leghálskrabbameini hjá Krabbameinsfélaginu árið 2013.

Þremur málum hefur verið vísað til landlæknis eftir að í ljós kom að mistök höfðu verið gerð við greiningu sýna hjá Krabbameinsfélaginu. Sævar Þór Jónsson, lögmaður þeirra sem hyggja á skaðabótamál vegna mistaka félagsins, segir að annað sambærilegt mál verði sent til landlæknis á morgun. Hann segir að kona hafi ekki verið látin vita af frumubreytingum við skimun árið 2016, hún hafi síðar veikst heiftarlega og í ljós komið að hún var með ólæknandi krabbamein.

Alls eru 25 mál á borði Sævars sem segir vísbendingar um að mistök hafi verið gerð við greiningu sýna í mörg ár og þar sé um að kenna verkferlum, ekki einstaka starfsmönnum.

Endurskoða sex þúsund sýni

Í síðasta mánuði kom í ljós að kona, sem hafði farið í leghálsskoðun hjá Krabbameinsfélaginu árið 2018 og fengið þá niðurstöðu að ekkert væri athugavert, væri með ólæknandi krabbamein sem líklega hefði verið hægt að koma í veg fyrir hefði hún fengið rétta greiningu. Síðan þá hefur Krabbameinsfélagið unnið að því að endurskoða sýni sex þúsund kvenna sem fóru í leghálsskimun fyrir tveimur árum.

Á þriðja þúsund sýna hafa verið greind aftur og af þeim hafa á sjöunda tug sýnt breytingar sem kalla á frekari skoðun þeirra kvenna sem í hlut eiga. Ekki er ljóst hvenær endurskoðun sýnanna lýkur en gert er ráð fyrir að í heildina verði á milli 100 og 150 konur kallaðar inn til frekari skoðunar. 

Mannleg mistök í kjölfar veikindaleyfis

Í tilkynningu frá Krabbameinsfélaginu kom fram að mistökin hefðu verið rakin til eins starfsmanns sem hafði nýlega verið kominn úr veikindaleyfi. Hins vegar væri ekki hægt að fullyrða um hvort heilsubrestur viðkomandi hefði stuðlað að því sem gerðist. Starfsmaðurinn hætti að eigin beiðni fyrir nokkru síðan en félagið taldi rétt að fara aftur yfir þau sýni sem hann hefði rannsakað.

Í kjölfarið var deilt um hæfi leitarstöðvarinnar til að framkvæma skimanir. Tryggvi Björn Stefánsson, skurðlæknir og fulltrúi Sjúkratrygginga Íslands, sagði í Kastljósi að hann hefði unnið skjal árið 2017 sem sýndi að gæðaeftirlit Krabbameinsfélags Íslands hefði verið í lamasessi og uppfyllti ekki evrópsk viðmið. Félagið sagði leitarstöðina vera óstarfhæfa vegna ummæla Tryggva og krafðist þess að fá skjalið sent, en það hefði aldrei fengið það í hendurnar.

Ekki tókst að finna skjalið. Hins vegar fannst annað skjal um sama efni sem hafði verið sent velferðarráðuneytinu í febrúar árið 2018 án þess að fram kæmi að það væri vinnugagn. Það var ekki sent Krabbameinsfélaginu til yfirlestrar áður en því var komið til ráðuneytisins. 

Það var mat landlæknis, eftir sameiginlega yfirferð með Sjúkratryggingum Íslands og Krabbameinsfélaginu, að engar upplýsingar væru í skjalinu sem kölluðu á viðbrögð heilbrigðisyfirvalda umfram þá skoðun sem þegar var þá hafin hjá Embætti landlæknis. Þá væri óábyrgt að birta skjalið án nánari skýringa og athugasemda af hálfu Krabbameinsfélagsins.

Hafa sinnt skimunum í áratugi

Krabbameinsfélagið var stofnað árið 1951 en þá voru þegar starfandi krabbameinsfélög í Reykjavík, Hafnarfirði og Vestmannaeyjum. Hugmyndin með félaginu var meðal annars að fræða almenning um helstu byrjunareinkenni, stuðla að aukinni menntun lækna í greiningu og meðferð og stuðla að krabbameinsrannsóknum hér á landi. 

Fljótlega fór starfsemin að snúast um leit að leghálskrabbameini. Það varð fyrir valinu bæði hérlendis og annars staðar í nágrannalöndunum þegar almenn, skipuleg krabbameinsleit hófst. Meinið er heppilegt til fjöldaleitar því hægt er að greina og fjarlægja forstig þess.

Árið 1964 hóf Krabbameinsfélagið leghálskrabbameinsleitina af fullum krafi með stofnun leitarstöðvar og stuttu síðar frumurannsóknastofu. Leitarstarfið var kynnt fyrir íslenskum konum og þær hvattar til að mæta. Það fyrirkomulag hefur verið við lýði síðan, auk þess sem félagið hefur sinnt leit að brjóstakrabbameini síðan 1987.

Krabbameinsfélagið hefur undanfarin ár boðið konum á aldrinum 23 til 65 ára á þriggja ára fresti í skimun fyrir leghálskrabbameinum, á grundvelli samnings við Sjúkratryggingar Íslands. Skimunin fer fram á leitarstöð Krabbameinsfélagsins í Skógarhlíð og ef niðurstöður skimunarinnar gefa ástæðu til frekari rannsókna er viðkomandi ráðlagt að panta tíma í frekari rannsókn á leitarstöðinni.

Krabbameinsfélag Íslands hefur fengið um 334 milljónir króna á ári í fjárframlög frá ríkinu til að sinna leghálsskimun og brjóstakrabbameini. 

Sjaldgæft að frjáls félagasamtök sinni skimun

Fyrirkomulag skimana hefur sætt nokkurri gagnrýni. Fyrir tveimur árum sagði Kristján Oddsson, kvensjúkdómalæknir og fyrrum yfirlæknir og sviðsstjóri Krabbameinsfélagsins, ekki eðlilegt að frjáls félagasamtök sæju um krabbameinsleit í heilu landi. Nauðsynlegt væri að breyta skipulagi, stjórn og framkvæmd skimunar fyrir krabbameini í brjóstum og leghálsi þannig að þær væru í samræmi við evrópskar leiðbeiningar.

Óskar Reykdalsson, framkvæmdastjóri lækninga hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, segist ekki gera sér grein fyrir hvers vegna vaxandi óánægja hefur verið með aðkomu Krabbameinsfélagsins á síðustu árum. 

„Krabbameinsfélagið lyfti grettistaki með því að hefja þessa öflugu herferð gegn krabbameini í leghálsi og það hefur gengið vel. Það er ekki há tíðni leghálskrabbameina á Íslandi,“ segir hann. „Það eru hins vegar skoðanir margra að svona starfsemi eigi kannski frekar heima í opinbera geiranum,“ segir Óskar og bendir á að sú þróun hafi orðið víða í nágrannalöndunum.

Heilsugæslan og Landspítalinn taka við keflinu

Skimunarráð var sett á laggirnar fyrir tveimur árum til að fjalla um framtíðarfyrirkomulag krabbameinsleitar. Ráðið komst að þeirri niðurstöðu að þörf væri fyrir öflugari löggjöf um krabbameinsskimunina. „Skimunarráð og embætti landlæknis gerði raunar þær tillögur til mín í fyrra að þessu fyrirkomulagi yrði breytt. Skimunarráð taldi að það yrði öruggara fyrir íslenskan almenning að koma þessu fyrir með öðrum hætti. Þangað stefnum við og vonandi í góðu samráði við alla aðila,“ sagði Svandís Svavarsdóttir, heibrigðisráðherra, við fréttastofu í síðustu viku.

Samningur heilbrigðisyfirvalda við félagið rennur út um áramót. Þá tekur Landspítalinn og Sjúkrahúsið á Akureyri yfir brjóstaskoðun og heilsugæslustöðvar taka yfir skimun fyrir leghálskrabbameini. Óskar segist vona að fleiri konur komi í skimun þegar þjónustan færist nær heimilum fólks.

„Við erum að vinna í því að koma þessu í gang og undirbúa málið svo stöðvarnar verði tilbúnar þegar sýnatakan færist yfir á heilsugæslustöðvarnar á höfuðborgarsvæðinu, eins og er á landsbyggðinni nú þegar. Við verðum tilbúin þegar kallið kemur,“ segir Óskar. Úrvinnsla sýnanna fer fram á Landspítalanum og Embætti landlæknis mun sjá um gagnagrunninn.

„Við tökum þátt í því að breyta verklagi eins og er að gerast í öllum heiminum og færa skimanirnar meira yfir í að gera HPV-mælingar með tækjum, mótefnamælingar gegn veirunni. Þá eru færri sem fara í þessa frumusýnatökur eins og hefur verið í gildi á undanförnum árum,“ segir Óskar.

Hann segir mistök Krabbameinsfélagsins ekki vera áfellisdóm yfir félaginu. Mistök geti átt sér stað í allri heilbrigðisstarfsemi. „Um leið og við setjum þetta yfir í mælingar gegn veirunni þá minnka líkurnar á að mannleg mistök geti átt sér stað sem eiga sér stað alls staðar þar sem mannshöndin kemur að. Með því að setja þetta í tækjabúnað minnka líkurnar á mistökum,“ segir hann.

Landlæknir hefur enn ekki sent heilbrigðisráðherra tillögur um hvort eða hvernig breyta þurfi verklagi við krabbameinsleit til áramóta. Svandís Svavarsdóttir hefur ekki viljað tjá sig um hvort hún telji að óháður aðili eigi að skoða sýnin, hvort æskilegt sé að fleiri en einn fari yfir hvert sýni eða hvort hún telji að konurnar sem málið snertir eigi að fá skaðabætur fyrr en hún fær tillögur landlæknis í hendurnar.