Þingstörf í skugga faraldurs og sóttvarna

14.09.2020 - 22:10
Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Steingrímur J. Sigfússon forseti Alþingis segir viðbúið að sóttvarnaráðstafanir vegna Covid-19 setji svip sinn á þingstörf í vetur. Ekki stendur til að draga úr þessum ráðstöfunum í bili þrátt fyrir að smitum hér á landi fari fækkandi.

Forsætisnefnd Alþingis kom saman til fundar í dag til að fara yfir komandi þingvetur. Þing hefst að nýju 1. október en alþingiskosningar fara fram í september á næsta ári.

Steingrímur segir óumflýjanlegt að faraldurinn hafi áhrif á þingstörf í vetur.

„Ég geri ráð fyrir því strax og við hefjumst handa við að ræða fjárlagafrumvarp og fjármálaáætlun að þá auðvitað mun það markast af aðstæðum og þessu djúpa efnahagslega höggi sem við höfum orðið fyrir,“ segir Steingrímur.

Strangar sóttvarnareglur hafa verið í gildi á Alþingi frá því faraldurinn hófst í vor. Steingrímur segir ekki á dagskrá að draga úr þessum ráðstöfunum.

„Við ætlum að leggja af stað í óbreyttu fyrirkomulagi með stækkað þingfundarsvæði þar sem þingmenn geta greitt atkvæði úr sætum sínum í hliðarherbergjum og hliðarsölum. Við náum mjög vel að uppfylla núverandi fjarlægðarreglur, eins metra regluna, og við ætlum ekki að fara að kasta því fyrir róða fyrr en meira liggur fyrir um árangur í glímunni við vágestinn,“ segir Steingrímur. 

Höskuldur Kári Schram
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi