Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Samsæriskenningar og hryðjuverk

Mynd: Skjáskot úr myndbandi AP / Skjáskot úr myndbandi AP
Donald Trump er eina von Bandaríkjanna til að sigra þau satanísku öfl sem stjórna djúpríki Bandaríkjanna. Þetta er mat hins dularfulla Q og fylgismanna hans í QAnon. Áhangendum hefur fjölgað stjarnfræðilega í kórónuveirufaraldrinum og fjölmörg ofbeldisverk eru rakin til þeirra.

Nú eru nítján ár frá hryðjuverkaárásunum á Bandaríkin, ellefta september 2001. Flestir tengja hryðjuverkaógnina við öfgafulla íslamista en staðreyndin er sú að flest hryðjuverk eru framin af hægrisinnuðum öfgamönnum. Tveir þriðju allra hryðjuverka í Bandaríkjunum á síðasta ári voru framin af innfæddum hægri öfgamönnum og á fyrri hluta þessa árs er hlutfallið komið upp í nítíu prósent.

epa05532913 (FILE) A file picture dated 13 September 2001 shows a US flag posted in the rubble of the World Trade Center in New York, USA. On 11 September 2001, during a series of coordinated terror attacks using hijacked airplanes, two airplanes were
 Mynd: EPA - AP Pool

Mörg þessara hryðjuverka eru rakin beint eða óbeint til QAnon sem er eins konar sértrúarsöfnuður um samsæriskenningar. Flestir tengja samsæriskenningar við furðufugla sem trúa á verur frá öðrum hnöttum eða að konungsfjölskyldan breska hafi staðið á bak við morðið á Díönu prinsessu. QAnon gengur miklu lengra og alríkislögreglan FBI hefur skilgreint QAnon sem hryðjuverkaógn.

Donald Trump
 Mynd: Twitter - Skjáskot

Þrátt fyrir að alríkislögreglan skilgreini hópinn sem hryðjuverkaógn nýtur hann víða samúðar á æðstu stöðum. Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur til að mynda fagnað stuðningi hans og ítrekað deilt Twitter-skilaboðum hans. Í Financial Times segir að hættan liggi í því hvað gerist ef Trump tapar í forsetakosningunum í nóvember, eins og skoðanakannanir benda til. Fyrir þennan sérkennilega söfnuð væri það eins og heiðingjar hertækju landið helga. Söfnuðurinn telur Donald Trump einu vonina til að sigrast á þeim satanísku öflum sem stjórna djúpríkinu í Bandaríkjunum.

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór - RÚV

Margir eiga erfitt með að taka svona sértrúarsöfnuð samsæriskenninga alvarlega en fjölmörg hryðjuverk hafa verið framin að undanförnu undir áhrifum frá málflutningi QAnon. Margir hafa sett inn tilkynningar um voðaverkin og ástæður þeirra á vefsíður sem QAnon notar og málflutningurinn er yfirleitt mjög í þeirra anda. Má þar nefna ógnarverkin í Cristchurch á Nýja-Sjálandi, hægriöfgamanninn sem drap tuttugu og þrjá af rómönsku bergi brotna í verslunarmiðstöð í Texas á síðasta ári og þann sem ári áður varð ellefu gyðingum að bana í samkunduhúsi gyðinga í Pittsburgh. Fjölmörg önnur dæmi má nefna þar sem gerendurnir höfðu nærst á málfutningi QAnon áður en þeir létu til skarar skríða. Alríkislögreglan telur að QAnon sé í raun hryðjuverkanet, ekki ósvipað og Al Kaída og byggi á sömu tvíhyggju um baráttu hins góða við hið illa. QAnon heldur því fram að Washington sé stjórnað af djöfladýrkandi barnaníðingum sem vilji tortíma Bandaríkjunum. Gyðingahatur er miðlægt í báðum þessum hreyfingum. Hjá Al Kaída voru það krossfarar og gyðingar og hjá QAnon eru það gyðingar eins og George Soros og Rothschild-fjölskyldan sem standa á bak við samsærið mikla. Íslamskir hryðjuverkahópar nýttu sér internetið í árdaga þess og QAnon hefur gengið þar enn lengra. Áróðrinum er dreift á samfélagsmiðlum eins og Facebook, Twitter og YouTube. Það var fyrst í júní á þessu ári sem Facebook byrjaði að fjarlægja efni frá QAnon, þremur árum eftir að dreifingin hófst.

Mynd með færslu
 Mynd:

Þeir sem verða stafrænir hermenn QAnon sverja fyrst eiðinn, "Where we go one, we go all" sem lauslega mætti þýða sem einn fyrir alla og allir fyrir einn. Meðal þeirra má nefna Michael Flynn, fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafa Donalds Trumps og þingframbjóðandann Marjorie Taylor Green sem Trump hefur sagt að sé framtíðarstjarna Repúblikanaflokksins. Hún hefur sagt um Trump að hann sé hið réttláta sverð gegn illskunni. Margir óttast að þessi hópur fari hamförum ef Trump tapar forsetakosningunum í haust, enda væri það skilgreining á heimsendi. Fyrsta hryðjuverkið sem var tengt beint við QAnon var framið skömmu eftir að Trump var kjörinn forseti. Maður að nafni Edgar Welch braut sér leið inn á pizzustað í Washington, vopnaður hálfsjálfvirkum riffli. Hann var sannfærður um að staðurinn væri í raun skálkaskjól Hillary Clinton sem væri þar með börn í kynlífsþrælkun. Hann viðurkenndi síðar að upplýsingar hans hefðu ekki verið alveg hundrað prósent réttar.

palmij's picture
Pálmi Jónasson
Fréttastofa RÚV