Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Reyna að kynnast utan skóla „innan skynsemismarka“

14.09.2020 - 19:01
Félagslíf framhaldsskóla er vonlaust á tímum COVID, segja forsetar nemendafélaga, sem bíða með skemmtanahald þar til eins metra reglan hefur verið afnumin. Vinahópar hittist utan skóla.

Eins og gefur að skilja hefur upphaf skólahalds víðast hvar verið heldur óhefðbundið í skugga eins metra reglu og fjöldatakmarkana. Forsetar nemendafélaga framhaldsskóla sem fréttastofa ræddi við klæjar í fingurna að fá að standa fyrir skemmtun innan skólans. „Þetta er svolítið tæmandi listi um hvað er hægt að gera og við erum alveg að verða búin með hann. Þetta er ömurlegt. Það er ekkert hægt að sykurhúða það. Þetta er algjörlega vonlaust,“ segir Eiríkur Kúld Viktorsson, forseti nemendafélagsins í Versló.

Bíða eftir grænu ljósi frá yfirvöldum

„Þetta er mjög flókið. Við tiplum mjög á tánum, erum með margt skipulagt og vonum að við fáum að gera eitthvað fljótlega. Við fengum reyndar ísbíl hérna fyrir utan, buðum upp á ís. Það er það eina sem við erum búin að ná að gera,“ segir Anna Sóley Stefánsdóttir, forseti nemendafélags Fjölbrautaskólans í Garðabæ.

„Við höfum í rauninni ekki fengið að gera neitt. Þetta tengist svolítið þessum meter sem er innan skólans, um leið og hann getur farið þá getum við gert eitthvað,“ segir Jóhann Þór Lapas, formaður skemmtinefndar Versló.

„Við sjáum ekki fram á að geta haldið þessu eins metra reglu innan vinahópanna sem eru að mæta á viðburði, þannig við bíðum eftir grænu ljósi frá yfirvöldum,“ segir Anna Sóley.

Vinahópar hittist utan skóla

Skólameistari Verslunarskólans segir í samtali við fréttastofu að það sé áhyggjuefni ef krakkar safnist mikið saman utan skóla, á kvöldin og um helgar. Það geti boðið smithættunni heim. Flestum skólum er skipt upp, í Verslunarskólanum er bekkjakerfi og því mætir aðeins helmingur bekkjarins í einu.

En eru krakkarnir ekki að hittast utan skóla? „Í skólanum er okkur skipt en við reynum að kynnast öll með því að hittast fyrir utan skóla,“ segir Þóra Kristín Jörundardóttir.

„Þau eru nýkomin í Versló og þekkja bara helminginn af bekknum sínum. Auðvitað vill maður hvetja þau til að kynnast restinni innan skynsemismarka,“ segir Eiríkur.

„Þetta eru bara bestu vinir að hittast og hefur verið alveg frá mars,“ segir Anna Sóley.